Fósturbörn í sveitum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:30:54 (1830)

2002-11-28 11:30:54# 128. lþ. 38.8 fundur 384. mál: #A fósturbörn í sveitum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi HH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Fyrirspyrjandi (Helga Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Það hefur orðið æ algengara að börn séu vistuð hjá fósturforeldrum í sveitum. Landssamtök vistforeldra í sveitum eru samtök bænda sem taka börn í sveit í lengri eða skemmri tíma. Oftast er um börn að ræða sem eiga í erfiðleikum heima fyrir og þurfa að fara í fóstur um lengri eða skemmri tíma á vegum Barnaverndarstofu eða félagsmálayfirvalda.

Landssamtök vistforeldra í sveitum voru stofnuð 1998 og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Bændasamtaka Íslands voru félagar í landssamtökunum 80 talsins. Landssamtökin starfa í nánu samráði við Barnaverndarstofu og félagsmálayfirvöld sem gefa út starfsleyfi til handa þeim bændum sem taka börn í fóstur. Þá hafa Bændasamtökin og Landssamtök vistforeldra í sveitum stuðlað að því að bændur geti aflað sér aukinnar menntunar á þessu sviði. Enginn vafi er um það í mínum huga að þessi starfsemi er jákvæð á flestan hátt. Enginn efast um að dvöl í sveit er börnum dýrmæt og gefandi og fósturforeldrar í sveitum geta með þessu treyst búsetu sína.

Herra forseti. Það eru fleiri hliðar á þessum málum. Fósturbörn í sveitum sem eru á skólaskyldualdri þurfa á skólagöngu að halda. Töluvert hefur borið á því að til skóla berist eingöngu tilkynning með skömmum fyrirvara um að væntanlegt sé barn í skólann og litlar sem engar aðrar upplýsingar fylgja. Ég þekki dæmi þessa og tel að hér þurfi að lagfæra ýmsa hluti.

Herra forseti. Ég er með afrit af bréfi sem sent var frá skólastjórum níu sveitaskóla á Vesturlandi til skóla- og félagsmálayfirvalda á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ nú í vor þar sem skólastjórarnir biðja um að til þeirra sé leitað fyrr í ferlinu og þeir fái þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru áður en tekin er ákvörðun um vistun barna. Skólinn þarf að hafa aðbúnað og starfsmenn til að geta sinnt fyrirvaralausum og oft sértækum þörfum barna sem vistuð eru. Það hefur hann ekki með stuttum eða engum fyrirvara.

Skólinn er menntastofnun og uppeldislega séð mjög mikilvægur í lífi barns. Skólastjórnendur eru allir af vilja gerðir að standa undir skyldum sínum. Um það snýst ekki málið. Hins vegar þarf að gæta þess að skólinn fái allar upplýsingar frá félagsmálayfirvöldum tímanlega.

Reglur um framfærslu og annan kostnað vegna barns í fóstri eru nokkuð skýrar. Óskýrar reglur og eftirfylgni þeirra um aðkomu skóla auka óbeinan kostnað þess sveitarfélags sem barnið er vistað í og verður auk þess til að vandræði geta skapast við skólagönguna. Til að draga fram skýrar upplýsingar um fjölda barna sem vistuð eru með þessum hætti og eru á skólaskyldualdri eru spurningar mínar til hæstv. félmrh. eftirfarandi:

1. Hversu mörg börn á vegum Barnaverndarstofu eða barnaverndarnefnda voru vistuð hjá fósturforeldrum í sveitum árið 2001? Hversu mörg þessara barna voru á skólaskyldualdri?

2. Hvernig skiptist kostnaður við vistun barna á milli lögheimilissveitarfélags og þess sveitarfélags sem barnið var vistað í?

3. Hver var endurgreiðsla Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna fósturbarna í sveitum?