Fósturbörn í sveitum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:34:08 (1831)

2002-11-28 11:34:08# 128. lþ. 38.8 fundur 384. mál: #A fósturbörn í sveitum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. ,,Hversu mörg börn á vegum Barnaverndarstofu eða barnaverndarnefnda voru vistuð hjá fósturforeldrum í sveitum árið 2001? Hversu mörg þessara barna voru á skólaskyldualdri?``

Þessa spurningu skil ég þannig að spurt sé um börn í tímabundnu fóstri því að börn í varanlegu fóstri alast upp sem börn fósturforeldra sinna og lögheimili þeirra er fært til fósturforeldranna. Á árinu 2001 voru 85 börn í tímabundnu fóstri á landinu. Af þessum 85 börnum voru rúmlega 90% úti á landi og þó aðallega í sveitum. Flest barnanna eru á skólaskyldualdri eða 71. 14 börn voru innan við skólaskyldu og meðalaldur þessara barna í tímabundnu fóstri var 14 ár. Það voru ekki alveg öll skólaskyldu börnin í skóla heldur njóta þrjú eða fjögur börn heimakennslu, þ.e. samið er sérstaklega við kennara um að annast kennslu þeirra.

Spurt var: ,,Hvernig skiptist kostnaður við vistun barna á milli lögheimilissveitarfélags og þess sveitarfélags sem barnið var vistað í?``

Barnaverndarstofa hefur ekki nákvæmar upplýsingar um þetta atriði og ekki ráðuneytið heldur þar sem sveitarfélögin sjá um samninga varðandi kostnað sem hlýst af fósturráðstöfuninni. Venjan er að það sveitarfélag sem sér um fósturráðstöfunina greiði allan kostnað, þ.e. það sveitarfélag þar sem barnið á lögheimili. Þar er aðallega um að ræða kostnað vegna skólagöngu barnanna og semja fræðsluyfirvöld sín á milli ef barn býr í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveitarfélagi. Samband ísl. sveitarfélaga hefur samið viðmiðunarreglur um þetta og annar kostnaður getur verið skólaakstur og mötuneyti sem greiddur er af félagsþjónustu þess sveitarfélags sem ráðstafaði barninu í fóstur, þ.e. lögheimilissveitarfélaginu.

Þá er spurt: ,,Hver var endurgreiðsla Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna fósturbarna í sveitum?``

Jöfnunarsjóðurinn kemur ekki beinlínis að greiðslu vegna fósturbarna. Jöfnunarsjóðurinn kemur einungis að slíkum málum með greiðslum til sveitarfélaga sem hafa færri en 2.000 íbúa vegna aksturs nemenda úr dreifbýli í skóla á grundvelli 10. gr. reglugerðar nr. 44/1999, um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi grunnskólanemandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu og eru fósturbörn á grunnskólaaldri sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu tekin með í útreikninga framlagsins eins og hver önnur börn sem í dreifbýlinu búa og þurfa á skólaakstri að halda.

Á grundvelli ákvæðis 10. gr. er einnig heimilt að greiða framlag vegna aksturs sveitarfélaga sem hafa fleiri en 2.000 íbúa ef um sameiningu hefur verið að ræða og íþyngjandi kostnað við akstur. Fjárhæð framlagsins tekur mið af fjarlægð frá vistunarstað nemenda í skóla og er greitt á grundvelli fjögurra viðmiðunarflokka. 1. flokkurinn er 3--4,9 km og þá er það 2.351 kr. á viku á nemanda. 2. flokkur er 5--14,9 km og þá er greiðslan 3.858 kr. á viku á nemanda. 3. flokkurinn er 15--29,9 km og þá er greiðslan 5.876 kr. á viku á nemanda og síðan er 4. flokkurinn yfir 30 km og er greiðslan þá 8.080 kr. á viku á nemanda og framlagið er greitt á starfstíma skólanna. Rétt er að taka fram að framlagið á einnig að koma til móts við sveitarfélög vegna gæslu þessara barna í biðtíma og launakostnaður vegna þeirra í mötuneyti o.fl. en aksturinn vegur þó þyngst í þessu framlagi.