Fósturbörn í sveitum

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:39:30 (1833)

2002-11-28 11:39:30# 128. lþ. 38.8 fundur 384. mál: #A fósturbörn í sveitum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi HH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:39]

Fyrirspyrjandi (Helga Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan eru nokkuð skýrar reglur um kostnaðarskiptingu þess sveitarfélags sem vistar barnið. En mig langar að spyrja hæstv. félmrh. hvort honum finnist ekki að í barnaverndarlögunum nýju hafi gleymst að gera ráð fyrir aðkomu skólans. Með leyfi forseta, langar mig að vitna í 72. gr. í lögunum sem er undirbúningur barns og fósturforeldra fyrir fóstur. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Barnaverndarnefnd ber að undirbúa barn undir viðskilnað frá kynforeldrum og fyrir væntanlegt fóstur. Barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur ber á sama hátt, áður en fóstur hefst, að undirbúa fósturforeldra fyrir hlutverk þeirra, svo sem með upplýsingagjöf, viðtölum og öðru því sem að gagni má koma.``

Þarna finnst mér að hefði átt að taka meira tillit til skólanna og jafnvel að bæta þarna inn í. Mér finnst því ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sama sinnis því að ferlið á í rauninni að vera þannig að í staðinn fyrir að skólinn fái að vita með stuttum fyrirvara að barnið sé á leiðinni, þá þarf að leita allra upplýsinga hvort skólinn sé í stakk búinn til að taka við barninu. Skólinn hlýtur að eiga að vera hluti af úrræðinu. Ég treysti því raunar að hæstv. félmrh. taki þessi mál til skoðunar og geri þær lagfæringar á þessu sem þarf. Ég er ekki að segja að þessi samskipti séu á allan hátt slæm. Þau eru alls ekki slæm en þau þurfa lengri aðlögun.

Mér finnst, herra forseti, að gleymst hafi að gera ráð fyrir skólagöngu fósturbarna í sveitum í nýju barnaverndarlögunum.