Rannsóknir á sumarexemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 11:59:36 (1841)

2002-11-28 11:59:36# 128. lþ. 38.10 fundur 318. mál: #A rannsóknir á sumarexemi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[11:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Já, ég vil taka undir það að ýmislegt hefur valdið því að hrossaútflytjendur hafa orðið fyrir ákveðnu áfalli. Þó vil ég segja hér að ég hygg að þetta sé allt á faglegri leið og að gæðakröfur séu miklar. Svarið við spurningunni um hvað menn hafa út úr þessu felst ekki í því hve margir hestar eru fluttir út. Aðalatriðið er að flytja út góð hross sem ganga vel á markaðnum og fá hátt verð fyrir þau. Það skiptir máli að vanda sig á þessum viðkvæma markaði.

[12:00]

Hv. þm. hefur lagt fyrir mig nokkrar spurningar. Við fyrstu spurningunni er svarið það að sumarexem í hrossum er ofnæmi gegn biti culicoides-mýflugna, en þær eru af ættkvísl mýflugna sem lifir ekki á Íslandi. Allir hestastofnar geta fengið sumarexem, 3--7%, en íslenskir hestar sem fluttir eru út eru mun næmari, í einstaka tilfellum meira en kannski 20%.

Árið 2000 var hrundið af stað rannsóknarverkefni í því skyni að skilgreina nánar orðið sumarexem og leita leiða til varnar sjúkdómnum. Markmið verkefnisins er eftirfarandi: Að skilgreina betur eðli þeirra ónæmissvara sem stuðla að sumarexeminu, skilgreina ofnæmisvakana í mýflugunum og gen þeirra, og þróa aðferðir til bólusetningar gegn ofnæminu.

Um er að ræða þriggja ára verkefni sem teygir sig yfir árin 2000--2003. Um er að ræða samvinnuverkefni Rannsóknastofnunarinnar á Keldum og háskólans í Bern í Sviss. Fyrir liggur skýrsla um framvindu verkefnisins á fyrsta ári og skýrsla um framvindu þess á öðru ári er væntanleg fyrir árslok.

Hvað 2. spurninguna varðar þá er það svo að á árinu 2001 var varið 25 millj. 717 þús. kr. til verkefnisins. Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagði fram 10 milljónir, Rannsóknastofnunin á Keldum 9 millj., Rannís 2,4 millj., svissneskir samstarfsaðilar 4 millj. 257 þúsund. Samkvæmt áætlun fyrir árið 2002 er framlag Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 10 millj. kr., framlag Keldna 9 millj., framlag samstarfsaðila í Bern í Sviss 5,7 og framlag Rannís 1 millj. kr., eða samtals 25 millj. 760 þúsund.

Hv. þm. spyr: ,,Hvaða líkur telja vísindamenn á að bólusetning við sjúkdómnum eða lækning finnist?``

Ekki er mögulegt að gefa fyrir fram marktækt svar um niðurstöðu af þessari rannsókn fremur en öðrum hliðstæðum rannsóknum.

Hv. þm. spyr einnig: ,,Hvenær má vænta þess að endanlegar niðurstöður starfshópsins liggi fyrir?``

Sú rannsóknaráætlun sem nú er unnið eftir nær til þriggja ára og tryggt hefur verið fé til verkefnisins þann tíma. Ég vil hér út af þeim tveimur verkefnum sem auðvitað komu til greina og var hér sótt um segja að í upphafi árs 2000 samþykkti stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins að leggja fram allt að 30 millj. kr. til rannsókna á sumarexemi í hrossum. Tvær umsóknir um fjármagn til slíkra rannsókna lágu þá fyrir. Var önnur frá Wolfgang Leibold, prófessor við dýralækningaháskólann í Hannover í Þýskalandi, í samvinnu við Björn Steinbjörnsson dýralækni. Hin umsóknin var frá dr. Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur, ónæmisfræðingi við Rannsóknastofnunina að Keldum, og Eliane Marti við Háskólann í Bern í Sviss.

Stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fékk dr. Ingileif Jónsdóttur, ónæmisfræðing við Landspítalann -- háskólasjúkrahús, til þess að leggja mat á umsóknirnar. Niðurstaða hennar var að umsókn Sigurbjargar Þorsteinsdóttur, sem miðar að því í samstarfi við aðila í Sviss að þróa DNA-bóluefni gegn sumarexemi, sé mjög metnaðarfull og áhugaverð og allar líkur séu til að mikilvægasta markmiðinu verði náð, þ.e. að skilgreina og einangra ofnæmisvaka fyrir sumarexem.

Varðandi umsókn prófessors Leibolds um styrk til að þróa próf til að mæla næmi hrossa á Íslandi til þess að fá sumarexem var það álit dr. Ingileifar að umsóknin uppfyllti ekki þær kröfur sem sjóðurinn gerði um styrkhæfni.

Það varð því niðurstaðan að þessum íslensku aðilum í samstarfi við aðila í Sviss var falið þetta verkefni og þeir eru með það í ferli. Ég get sagt hér að ég vænti þess auðvitað að árangur náist. En svona eru vísindin. Allt hefur sinn tíma. Það mundi auðvitað styrkja hér mjög markaðinn í kringum hrossin ef þessi árangur næðist. En við þurfum að huga að okkar málum á mörgum fleiri sviðum, t.d. að meðferð hrossanna þegar þau koma út og við verðum að leggja áherslu á þekkingu í þeim efnum o.s.frv.