Rannsóknir á sumarexemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:04:49 (1842)

2002-11-28 12:04:49# 128. lþ. 38.10 fundur 318. mál: #A rannsóknir á sumarexemi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:04]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og vil segja frá því að til hv. landbn. komu á dögunum þau Sigurbjörg Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Svansson og fóru yfir þetta verkefni sem þau eru að vinna að á Keldum, og sem ég tel að sé mjög mikilvægt að fái að halda áfram. Ég minni á að upp kom hrossapest á Íslandi fyrir nokkrum árum. Það var töluvert afdrifaríkt því að þá var lagt bann við öllum útflutningi á hrossum.

Það kom fram hjá þeim Sigurbjörgu og Vilhjálmi að allt þeirra starf gæti tekið mjög langan tíma og það er ekkert víst að komin verði niðurstaða fyrr en eftir 10--20 ár. En það er mjög mikilvægt að allt þetta rannsóknarstarf fái að vinnast áfram og þau fái þann stuðning sem þarf til þess að það sé hægt.