Rannsóknir á sumarexemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:07:09 (1844)

2002-11-28 12:07:09# 128. lþ. 38.10 fundur 318. mál: #A rannsóknir á sumarexemi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JHall
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:07]

Fyrirspyrjandi (Jónas Hallgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. og öðrum sem hafa tekið þátt í umræðum um þessa fyrirspurn.

Það kom fram í meginmáli hæstv. ráðherra að spurningin sé ekki hversu mörg hross eru flutt út heldur hversu góð þau eru. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Hins vegar segir helmingsfækkun á ekki fleiri árum sína sögu. Það kom líka hér fram að í gangi hefði verið hrossainflúensa. Kunnugir telja að fyrir löngu sé gróið yfir það. Það þýðir heldur ekki að ímynda sér að þessi fækkun stafi af ætluðum skatt- eða tollsvikum í Þýskalandi eins og heyrst hefur og allra síst af markaðssetningu hrossanna því að þar hafa menn staðið sig frábærlega vel.

Mér finnst 25 eða 26 millj. kr. ekki miklir peningar til rannsókna í þessu efni. Ég er ekki að fjargviðrast út af því. Það dettur mér ekki í hug. Hitt er svo verra, finnst mér, ef það kæmi nú í ljós sem kom fram í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur, að þetta tæki 10--20 ár. Það gengur ekki upp í mínum kolli, engan veginn. Það má ekki gerast.

Eins og fram kom þá eru til aðrar aðferðir til þess að koma í veg fyrir að þessi hross séu flutt úr landinu að stórum hluta. Það hlýtur þá að vera leið B að marka sér einhverja slíka möguleika og ég mæli eindregið með því sem kom hér fram í máli hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur.

Það er afar mikilvægt að hér verði snúist hratt til varnar, ekki síst vegna þess að fyrir liggur að erlend tryggingafélög eru nú þegar byrjuð að greiða út hross sem fara í slátrun af þessum völdum. Þá geta menn séð á hvaða leið við erum verði ekki spornað við.