Stuðningur við kvikmyndagerð

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:21:54 (1850)

2002-11-28 12:21:54# 128. lþ. 38.12 fundur 293. mál: #A stuðningur við kvikmyndagerð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:21]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. hefur ákveðið að styrkja gerð kvikmyndar eftir Hrafn Gunnlaugsson með 9 millj. kr. framlagi. Ákvörðun um þessa styrkveitingu hefur vakið talsverða athygli. Það er óhætt að fullyrða að hún sé umdeild, ekki síst í ljósi þess að við eigum opinbera stofnun sem lögum samkvæmt annast styrkumsóknir um kvikmyndir af öllu tagi og hefur sú kvikmynd sem hér er til umfjöllunar einmitt fengið 7 millj. kr. styrk úr stutt- og heimildamyndadeild Kvikmyndasjóðs.

Ein af ástæðum þess að styrkveiting til þessarar myndar Hrafns Gunnlaugssonar er umdeild hlýtur að vera sú staðeynd að hér virðist um áróðursmynd að ræða sem reka á áróður fyrir virkjanastefnu ríkisstjórnarinnar. Til marks um það er 5 millj. kr. framleiðslustyrkur Landsvirkjunar til myndarinnar en eins og alþjóð veit rekur Landsvirkjun nú hatramma áróðursherferð fyrir virkjanastefnu stjórnvalda. Hæstv. umhvrh. hefur sjálf sagt eina af ástæðum þess að hún ákvað að veita myndinni ,,Ísland í öðru ljósi`` þennan stuðning vera þá að mynd Hrafns um skipulagsmál í Reykjavík, ,,Reykjavík í öðru ljósi``, hafi vakið mikla athygli. En man hæstv. ráðherra ekki hver boðskapur þeirrar myndar var? Hann var af áróðurslegum toga og lýsti mjög afgerandi stuðningi við það að Reykjavíkurflugvöllur hyrfi á brott úr Vatnsmýrinni og sömuleiðis lýsti hún stuðningi við sjónarmið þeirra sem aðhyllast háhýsi og þéttingu byggðar. Í ljósi þessa má ætla að eitthvað svipað verði upp á teningnum þegar Hrafn Gunnlaugsson ákveður að gera mynd um skipulagsmál hálendis Íslands.

Það er ekki óeðlilegt að ætla að kvikmyndagerðarmenn hafi sótt um stuðning til umhvrn. í kjölfar styrkveitingarinnar til Hrafns og örugglega líka mörg undangengin ár. Í íslenskri kvikmyndagerð hafa menn jú verið ötulir við að framleiða náttúrulífsmyndir af ýmsu tagi. Maður skyldi þá líka ætla að það stæði hæstv. umhvrh., sem á að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndar, nær að styrkja myndir af því tagi. Leikur mér því forvitni á að vita, herra forseti, hversu margar umsóknir um fjárstuðning við kvikmyndagerð hafi borist til umhvrn. á kjörtímabilinu, hverjir hafi átt þar hlut að máli og hvernig afgreiðslu þessar umsóknir hafi hlotið.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. umhvrh. um megininntak myndarinnar sem hlýtur 9 milljónirnar og um það hvort hún fjalli á einhvern hátt um mannvirkjagerð á hálendi Íslands. Með öðrum orðum: Er umhvrh. að fjármagna virkjana- og stóriðjuáróður?