Kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:41:40 (1856)

2002-11-28 12:41:40# 128. lþ. 38.13 fundur 368. mál: #A kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:41]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. þau svör sem hann hefur veitt við fyrirspurninni. Ég nefni sérstaklega það sem síðast kom fram, að á hans vegum er að störfum nefnd þar sem samtök psoriasis-sjúklinga, Spoex, eiga fulltrúa. Sú nefnd er að fjalla um hvað betur megi fara í þessu efni.

Ég vil þó taka sérstaklega fram að mér heyrðist koma fram í upplýsingum hæstv. heilbrrh. að sjúklingar sem nytu meðferðar í Bláa lóninu bæru skarðan hlut frá borði varðandi kostnaðarþátttöku Tryggingastofnunar, samanborið við þá sem koma til innlagnar á spítalann á Vífilsstöðum, í framtíðinni á Landspítalann í Fossvogi, og raunar líka þegar borið er saman við kostnaðarhlutfall við meðferð erlendis sem gjarnan er kölluð loftslagsmeðferð.

Það er rétt að geta þess að þessi meðferðarúrræði eru ólík og að sjálfsögðu komið undir athugunum og niðurstöðu læknis, sérfræðings í húðsjúkdómum, hvaða meðferð telst eiga við. Eitt af því sem samtök psoriasis-sjúklinga hafa bent á --- væntanlega mun það koma fram í störfum nefndarinnar sem hæstv. ráðherra greindi frá --- er að þau telja nauðsynlegt að sjúklingar eigi jafnari aðgang en nú er að öllum þessum þremur meðferðarúrræðum og jafnvel á þeim grundvelli að ekki þurfi að koma til úrskurður sérfræðings hverju sinni en úrskurður geti gilt í lengri tíma en nú tíðkast eftir því sem fram hefur komið. Ég hvet til þess að það náist fram að þessir sjúklingar njóti jafnræðis í kostnaðarþátttöku.