Kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:43:32 (1857)

2002-11-28 12:43:32# 128. lþ. 38.13 fundur 368. mál: #A kostnaðarþátttaka Tryggingastofnunar við meðferð psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:43]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina. Sjónarmið hans verða tekin til greina í þeirri umræðu sem ég gat um og fer fram á okkar vegum. Ég efast ekki um að samtök psoriasis-sjúklinga muni koma sjónarmiðum sínum að í þeirri vinnu sem stendur yfir.

Ég vil aðeins geta þess að ég tel mikla möguleikar í Bláa lóninu fyrir meðferð psoriasis-sjúklinga. Þar höfum við verið að skoða með þeim aðilum mjög metnaðarfull áform um stækkun göngudeildar. Við erum vel meðvituð um það í ráðuneytinu hvaða möguleikar er þar fyrir hendi og hvernig starfsemin þar hefur þróast. Ég held að það sé einn af möguleikunum í íslenskri heilbrigðisþjónustu, að efla þá starfsemi. Vonandi getum við komið málum þannig fyrir.

Að öðru leyti skírskota ég til þess starfs sem er í gangi. Ég á von á tillögum nefndarinnar og mun þá fara nánar yfir þetta mál.