Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:01:03 (1881)

2002-11-28 15:01:03# 128. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við erum að sjálfsögðu ekki andvíg því að gerðar verði úrbætur í fangelsismálum. Ef vantar fleiri tugthússpláss þá ber að bæta úr því. En við teljum að það sé hlutverk ríkisins að byggja, eiga og reka slíkt húsnæði og standa fyrir slíkri starfsemi og erum alfarið andvíg því að haldið sé út á braut einhvers konar einkafjármögnunar, einkarekstrar eða einkavæðingar tugthússmála í landinu. Slíkt hefur verið gert sums staðar annars staðar með hörmulegum afleiðingum og þarf ekki sögur af því að segja.

Við teljum þar af leiðandi að ekki eigi að standa að málum með þessum hætti. Þar á ofan er um opna heimildargrein að ræða sem engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig nýtt yrði. Við teljum því eðlilegast að ríkisstjórnin undirbúi málin betur og leggi þá fyrir Alþingi tillögur um byggingu fangelsis eftir því sem ástæða verður talin til. Við munum greiða atkvæði gegn þessum lið.