Veiðieftirlitsgjald

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:30:55 (1883)

2002-11-28 15:30:55# 128. lþ. 39.2 fundur 246. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (hækkun gjalds) frv. 121/2002, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

Í þessu frv. var lögð til hækkun á gjaldi fyrir leyfi til veiða í atvinnuskyni og gjaldi á úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla metinn í þorskígildistonnum. Enn fremur var verið að rýmka greiðsluskyldu vegna veiðieftirlitsmanna þannig að hún nái einnig til útgerða skipa sem vinna fisk um borð þótt ekki sé um fullvinnslu að ræða.

Nefndin telur að síðastnefnda breytingin þarfnist meiri skoðunar, samhliða frv. til breytinga á lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu að 3. gr. falli brott.

Undir þetta álit rita eftirtaldir hv. þm.: Einar K. Guðfinnsson, formaður og framsögumaður, Árni Ragnar Árnason, Guðjón A. Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Jóhann Ársælsson, Svanfríður Jónasdóttir og Vilhjálmur Egilsson. Árni Steinar Jóhannsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, sat fund hennar og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.