Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 15:50:39 (1889)

2002-11-28 15:50:39# 128. lþ. 39.5 fundur 376. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (tryggingardeild útflutnings) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem er 376. mál þingisins á þskj. 428.

Tryggingardeild útflutningslána starfar nú samkvæmt II. kafla laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997. Í 11. gr. þeirra laga er kveðið á um hlutverk deildarinnar í fimm töluliðum. Hins vegar hefur á síðustu missirum komið í ljós að þær lagareglur sem gilda um tryggingardeild útflutningslána eru þröngar. Hefur það leitt til þess að stjórnarnefnd tryggingardeildarinnar hefur séð sig knúna til að synja um veitingu trygginga og ábyrgða jafnvel þótt ljóst sé að slíkt hefði stuðlað að íslenskum útflutningi á vörum eða þjónustu. Þá hefur komið í ljós að sambærilegar tryggingardeildir á Norðurlöndunum búa við rýmri lagareglur en sú íslenska. Frv. þetta miðar að því að útvíkka starfsheimildir núverandi tryggingardeildar útflutningslána til þess að deildinni verði unnt að stuðla frekar að íslenskum útflutningi vöru og þjónustu og treysta þannig samkeppnisstöðu íslensks útflutnings. Er frv. unnið í samræmi við þær samningsskuldbindingar íslenskra stjórnvalda sem koma fram í leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um skammtímaútflutningslánatryggingar.

Á árinu 2000 féll ábyrgð á tryggingardeild útflutningslána sem varð til þess að varasjóður deildarinnar varð að engu. Í kjölfarið fól ríkisstjórnin stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutningslána að gera úttekt á þörf fyrir áframhaldandi starfsemi deildarinnar og gera tillögur um framtíðarhlutverk hennar, fjármögnun og rekstrarform ef niðurstaðan yrði sú að deildin mundi starfa áfram.

Stjórnarnefndin skoðaði í kjölfarið ítarlega hvaða kostir væru í stöðunni. Niðurstaða skoðunarinnar var að þörf væri fyrir áframhaldandi starfsemi tryggingardeildar útflutningslána og að styrkja þyrfti starfsemi deildarinnar. Ákveðið var að stofna til samstarfsverkefnis vegna tryggingardeildar útflutningslána til þriggja ára. Þátttakendur í því voru iðn.- og viðskrn., Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Samningur um samstarfsverkefnið tók gildi hinn 15. apríl 2002 og mun renna út hinn 15. janúar 2005. Í samstarfsverkefninu felst að ráðist verður í sérstakt kynningarstarf um starfrækslu tryggingardeildar útflutningslána, gerðir verða samningar við utanaðkomandi aðila um greiningu á umsóknum til tryggingardeildar útflutningslána og ráðinn starfsmaður til að sinna málefnum deildarinnar eingöngu. Meðalkostnaður við samstarfsverkefnið er áætlaður 8 millj. kr. á ári. Þátttakendur samþykktu að leggja 2 millj. kr. hver á ári til samstarfsverkefnisins. Stærsti kostnaðarliðurinn er vegna ráðningar starfsmanns. Samstarfsverkefnið miðar að því að fá úr því skorið á næstu þremur árum hvort mögulegt væri að skjóta nægilega traustum stoðum undir starfsemi tryggingardeildar útflutningslána.

Í samstarfsverkefninu felst einnig að komið var á fót verkefnastjórn sem skipuð er einum fulltrúa frá iðnrn., einum frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sameiginlega og einum frá Samtökum iðnaðarins, auk þess sem starfsmaður tryggingardeildarinnar situr fundi verkefnastjórnar. Verkefnastjórnin gerir tillögur að markaðs- og fjárhagsáætlunum til stjórnarnefndar tryggingardeildar útflutningslána, ásamt tillögum að kynningarfundum um starfsemi tryggingardeildar útflutningslána. Tillögur verkefnastjórnar eru háðar samþykki stjórnarnefndar tryggingardeildar útflutningslána.

Ég vonast því til að bjartari tímar séu í vændum hjá tryggingardeildinni og þar með hjá íslenskum útflutningi.

Eins og áður sagði er í frv. þessu gert ráð fyrir útvíkkun á starfsheimildum tryggingardeildarinnar frá því sem nú er til þess að deildinni verði unnt að stuðla frekar að íslenskum útflutningi vöru og þjónustu og treysta þannig samkeppnisstöðu íslensks útflutnings. Enn er þó gert ráð fyrir að tryggingardeild útflutningslána veiti ábyrgðir og tryggingar vegna viðskiptalegrar áhættu annars vegar og stjórnmálalegrar áhættu hins vegar. Með viðskiptalegri áhættu er m.a. átt við gjaldþrot skuldara en með stjórnmálalegri áhættu er m.a. átt við áhættu í tengslum við styrjaldir eða óstöðugt stjórnarfar sem getur m.a. birst í formi eignarnáms. Ætlunin er að þjónusta við íslenskan útflutning og íslenska útflutningshagsmuni verði sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.