Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:11:08 (1892)

2002-11-28 17:11:08# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:11]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Ég vil byrja á að þakka þingheimi fyrir að samþykkja að veita þessu máli hraðafgreiðslu, ef svo mætti segja, taka það á dagskrá jafnskjótt og því er útbýtt. Það er nauðsynlegt vegna eðlis þessa máls að það fái hraða afgreiðslu eins og allir vita sem þekkja til efnis frv.

Í þessu frv. er lagt til að annars vegar áfengisgjald og hins vegar tóbaksgjald hækki með tilteknum hætti. Lagt er til að áfengisgjald á sterku áfengi hækki um 15% sem leiða mun til á að giska 10% hækkunar í smásölu á sterku áfengi. Rétt er að undirstrika að ekki er lögð til hækkun á léttum vínum eða bjór.

Í öðru lagi er hins vegar lagt til að tóbaksgjald hækki um 27,7% en jafnframt er gert ráð fyrir að álagning ÁTVR lækki á móti úr 17% í liðlega 11%. Þessi hækkun mun þýða að tóbaksverð hækkar að jafnaði um 12%.

Gera má ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs vegna þessara breytinga geti aukist um um það bil 1.100 millj. kr. á heilu ári en að áhrif breytinganna á vísitölu neysluverðs verði innan við 0,3% og mun slík breyting ekki hagga þeim verðbólgumarkmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér.

Rétt er að taka það fram, herra forseti, að það er langt um liðið síðan áfengisgjald og tóbaksgjald hafa hækkað. Þannig er að áfengisgjald var sett í núverandi búning, í þeim lögum sem hér er lagt til að breytt verði, á árinu 1995. Hefur því gjaldi í grunninn ekki verið breytt síðan þó um hafi verið að ræða lítils háttar hækkun á gjaldi á sterkum vínum árið 1998 í tengslum við samræmingu á gjaldtökunni og breytingu á skipulagi hennar. Þess vegna hefur í raun lítil sem engin hækkun orðið á þessu gjaldi allt frá árinu 1995.

Ef talin eru með þau áhrif sem urðu 1998 og þeim bætt við 15% hækkun núna má segja að í heild hafi frá 1995 áfengisgjald á sterkum vínum hækkað um 19% á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur hækkað um 30%. Að því er varðar tóbaksgjaldið þá er það þannig, eins og margir muna frá síðasta þingi, að fyrir jól í fyrra var sett í lög að tóbaksgjaldi yrði aðeins breytt með lögum. Áður fyrr hafði það verið gert með sérstökum ákvörðunum í fjmrn. eins og reyndar var einnig um áfengisgjald. Slík gjaldtaka, skattlagning á vegum framkvæmdarvaldsins, stenst að sjálfsögðu ekki þær kröfur sem stjórnarskrá Íslands gerir nú orðið. Þess vegna var breytt um form á þessu, fyrst með áfengisgjaldinu og nú síðar með tóbaksgjaldinu. Eigi að síður hefur tóbaksgjald eða skattlagning í þessu formi á tóbaki verið óbreytt í mörg ár. Það er þess vegna tími til kominn að gera þar á nokkrar breytingar eins og hér eru lagðar til.

Segja má að tilgangurinn með frv. sé tvíþættur. Annars vegar einfaldlega að afla tekna í ríkissjóð, m.a. vegna ýmissa útgjalda sem hafa verið að falla til á síðustu dögum og vikum í tengslum við fjárlagagerð en einnig til að ganga úr skugga um að þessi gjaldtaka af áfengi og tóbaki sé ekki úr takti við það sem verið hefur á umliðnum árum, hún haldi nokkurn veginn í við verðlagsþróunina, þó það sé reyndar ekki raunin með þessari hækkun, eða dragist ekki aftur úr ef orða mætti það svo um gjaldtöku af þessu tagi.

Ég held, herra forseti, að ekki sé ástæða til að hafa um þetta lengra mál. Ég legg áherslu á að málið fái hér skjóta afgreiðslu. Ég kynnti efni þess fyrir þingflokksformönnum á þriðjudaginn var og gerði grein fyrir því að af minni hálfu væri óskað eftir því að málið yrði afgreitt hratt og örugglega í Alþingi. Mér þætti vænt um að það tækist að ljúka því á þessum sólarhring.

Að svo mæltu, herra forseti, vil ég leyfa mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.