Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:16:56 (1893)

2002-11-28 17:16:56# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að mál þetta ber brátt að. Það má kannski segja að það liggi í eðli aðgerða af þessu tagi að þær verði að bera þannig að. Þegar þær hafa litið dagsins ljós er a.m.k. ekki heppilegt að það standi lengi yfir að gera þær breytingar sem í þeim eru fólgnar, eigi þær að verða á annað borð.

Á þessu höfum við fullan skilning, enda oft og iðulega staðið frammi fyrir sambærilegum málum. Skiptir þá í sjálfu sér ekki öllu máli kannski hvort viðkomandi breytingar eru til hækkunar eða lækkunar á gjaldtöku, vörugjöldum eða sköttum eða fjáröflunartollum af þessu tagi. Í öðru tilvikinu getur skapast mikil örtröð ef boðuð hækkun er lengi í farvatninu en í hinu tilvikinu stöðvast öll viðskipti og menn bíða eftir því að vörurnar lækki. Hvort heldur sem er er í raun óhjákvæmilegt að gera slíkar breytingar snöggt eigi þær ekki að hafa truflandi áhrif á þau viðskipti sem í gangi eru. Þetta réð því, herra forseti, að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfðum fullan skilning á því að úr því að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að gera þessar breytingar þá yrði það að ganga hratt fyrir sig. Við greiddum því atkvæði að málið yrði tekið á dagskrá með afbrigðum enda meiri hluti fyrir því sem stjfrv. og ætlunin að það næði fram að ganga.

Það er að sjálfsögðu alltaf gott að menn geti skoðað mál ofan í kjölinn og ég treysti því að hv. efh.- og viðskn. muni reyna það eins og hún getur á næstu klukkutímum. Á hinn bóginn má segja að þetta mál sé ekki neitt óskaplega flókið. Þetta snýst um upphæðir tiltekinna gjalda sem mönnum eru vel kunn, tóbaksgjalds og áfengisgjalds og um leið og reikningslegar forsendur málsins og fjárhagsleg áhrif liggja fyrir er í sjálfu sér ekki flókið að taka afstöðu til þess.

Hitt er annað mál að það er svolítið kauðsk röð á hlutunum að hæstv. ríkisstjórn var að fá afgreidd eftir 2. umr. fjárlagafrumvörp sín og þetta eru auðvitað mál með fjárhagsleg áhrif sem eru inn í samhengi fjárlagafrv. Það hefði kannski verið eðlilegt að hafa röðina hinsegin, að þetta frv. væri tekið í gegn fyrir 2. umr. og afgreiðslu fjárlaga eða þá samhliða tekjuöflunargrein fjárlagafrv. við 3. umr. Ræðuhöld stjórnarliða hér um hinn trausta ríkisbúskap eru strax komin í svolítið annað ljós þegar röksemdafærsla frv. er tekin hér upp. Eins og lesa má í greinargerð og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. verður þetta til að treysta stöðu ríkissjóðs þannig að hún veikist ekki um of og þannig sé grafið undan efnahagslegum stöðugleika. Þetta eru nokkuð sterk orð í ljósi þess að hér er þó ekki meira en milljarður á ferðinni. Þá má velta fyrir sér hvort ástandið sé mun alvarlegra hvað stöðugleikann snerir en ætla hefur mátt af sjálfshólsræðum hæstv. fjmrh., formanns fjárln. og fleiri kappa að undanförnu. Er hæstv. fjmrh. í alvöru þeirrar skoðunar sem hér stendur, að hinum efnahagslega stöðugleika sé jafnvel ógnað ef hann fái ekki þennan viðbótarmilljarð í kassann?

Um hin efnislegu áhrif aðgerðarinnar, herra forseti, að hækka þarna gjald á áfengi og tóbaki, vil ég segja það fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við erum ekki andvíg því og heldur í raun og veru fylgjandi því að aðgerðir í þessa veru séu gerðar. Ég hygg að það megi rökstyðja að þetta sé hvort tveggja í samræmi við gildandi heilbrigðisáætlun í landinu og í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fleiri aðila sem hvetja stjórnvöld til stýringar af þessu tagi, að leggja umtalsverð gjöld á tóbak og sterkt áfengi sérstaklega og reyna þannig að hamla gegn óhóflegri notkun þessara skaðlegu efna eða vímugjafa.

Það er líka ámælisvert, herra forseti, í þessu sambandi sem hæstv. fjmrh. var að fjalla um áðan, að þessi gjöld skuli ekki látin fylgja verðlagi og taka breytingum á hverju ári svo ekki komi til stökka af því tagi sem hér er á ferðinni, sem aftur gera það nauðsynlegt að hraða breytingunum meira en ella væri ástæða til ef um minni breytingu eða verðlagsuppfærslu á hverju ári væri að ræða. Ég held að menn eigi að reyna að ganga frá því um það bil hvar þessi gjöld eigi að liggja, hve há þau eigi að vera. Það er fagleg ákvörðun eða pólitísk og síðan séu þau látin taka verðlagsbreytingum í samræmi við þróun verðlags á hverjum tíma en hækka þetta ekki í slumpum af þessu tagi, kannski með 5--7 ára millibili og þá verði hækkunin eins og hér, kannski ein 15--20%, eða hver hækkunin er á sjálfum gjöldunum sem aftur veldur 10--12% hækkun útsöluverðs.

Herra forseti. Það kemur hér fram að þetta muni hafa 0,3% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Það er auðvitað lakara, það er miður og vekur athygli á máli sem oft hefur verið hreyft á Alþingi og hv. þm. Þuríður Backman hefur endurtekið flutt frumvörp um, að tóbak verði tekið út úr neyslugrunninum þannig að stýriaðgerðir af því tagi sem fólgnar eru í ákvörðun tóbaksgjalds hafi ekki vísitöluáhrif með þessum hætti og skrúfi í framhaldinu upp eða þess vegna niður skuldir heimilanna, svo að dæmi sé tekið. Það er hið neikvæða við þetta. Það hefur örugglega haldið aftur af mönnum á undanförnum árum að hækka þetta gjald eins og hefði átt að gera, hefði átt að fylgja verðlagsþróun frá því fyrir 10--12 árum síðan þegar gjaldið að raungildi komst í þær hæðir og jafnvel meiri en verður með þessari hækkun. Ég tel, herra forseti, skaða að þessar breytingar skuli ekki hafa verið gerðar, að taka t.d. tóbakið og jafnvel þetta hvort tveggja út úr grunni vísitölu neysluverðs. Þessi stýring á að sjálfsögðu miklu fremur að vera hollustuaðgerð heldur en spurning um hreina og klára fjáröflun í ríkissjóð.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að við sjáum ekki ástæðu til að leggja stein í götu þessa máls, eins og ég hef áður sagt. Þvert á móti erum við í aðalatriðum efnislega sammála þessum aðgerðum. Það má gagnrýna hvernig þetta ber að og gagnrýna að þetta skuli ekki hafa verið gert með jöfnum og reglubundnum hætti. Hitt er svo annað mál að hér er á ferðinni hluti af ríkisfjármálapakka hæstv. ríkisstjórnar og þar höfum við miklar athugasemdir fram að færa. Ég reikna með því að við leyfum hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta hennar að bera ábyrgð á afgreiðslu þessa máls, enda svo sem ekki um annað beðið eða ætlast til þess sérstaklega.