Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 17:42:00 (1896)

2002-11-28 17:42:00# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[17:42]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er tekið til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, þar sem verið er að leggja til að gjald af áfengi muni hækka. Þetta er eitt af því, herra forseti, sem ræður því hversu skuldir heimilanna eru miklar því að mjög mörg heimili eru skuldsett og þurfa að búa við það að lánin sem fólk hefur tekið er undir svokölluðum verðbótum. Verðbæturnar hækka þegar vísitalan hækkar og þá hækka skuldirnar hjá fólkinu í landinu. Þegar brennivínið hækkar þá hækka skuldirnar hjá fólkinu í landinu.

Ég hélt að ástandið væri svo gott hjá ríkisstjórninni og í ríkisbúskapnum að ekki þyrfti að hækka gjöldin. En nefnd eru tvenn rök fyrir því að hækka eigi þessi gjöld. Önnur rökin eru þau að í fyrsta lagi hafi álögur af áfengi og tóbaki verið óbreyttar og þess vegna þurfi að hækka. Verður það endilega að vera þannig að ef verð hefur verið óbreytt þá verði að hækka það? Ef verð á kaffi hefur verið það sama mjög lengi þá verði að hækka það? Mér finnst þetta ekki vera nein rök, herra forseti.

Hin rökin eru þau að stjórnvöld hafi gripið til ýmissa ráðstafana að undanförnu sem hafi leitt til aukinna útgjalda, m.a. til málefna aldraðra, sem kalli á sérstök viðbrögð til að veikja ekki stöðu ríkissjóðs um of. Þýðir þetta að ríkissjóður sé í einhverjum vanda og einhverjum vandræðum? Orðalag athugasemdanna bera það með sér. Er einhver vá fyrir dyrum í efnahagsmálum? Ég spyr hæstv. fjmrh. um það fyrst þetta er skrifað á það blað sem ég er með hér fyrir framan mig.

[17:45]

Það er dálítið merkilegt að það skuli þurfa að koma með svona eftir á. Það er búið að tilkynna að auka eigi fjármagn til málefna aldraðra og greinilegt er að ekki hefur verið til innstæða fyrir því. Þess vegna þarf að sækja þá peninga eitthvert annað og nú er það gert í áfengisgjaldið.

Einnig má spyrja um annað, herra forseti, með tilliti til þeirrar umræðu sem fram hefur farið í sambandi við vímuefnaneyslu ungmenna, hvernig áhrif svona lagað gæti haft á að vímuefnaneysla aukist, þegar verðlag á brennivíni hækkar í sambandi við allan þennan ljóta markað, vímuefnamarkaðinn í heild. Þetta getur skipt máli. Sumir halda því fram að eiturlyf eins og hass sé ,,það ódýrt`` að ungmenni séu farin að nota það meira. Ég vona hins vegar að sú staðhæfing sé ekki rétt.

Ég ítreka það sem ég sagði um skuldir heimilanna. Hefur fjmrn. reiknað út hvað skuldir heimilanna muni hækka við þetta mál?

Þetta vekur okkur alltaf til umhugsunar um verðbæturnar. Hvaða vit er í því að vera með verðbætur á lánum? Er ekki hægt að hafa bara venjulega vexti í landi þar sem allt drýpur í smjöri og rjóma, eins og sagt er stundum? Hér drýpur smjör af hverju strái. Þurfum við þá að hafa verðbætur á lánunum? Þetta tel ég vera umhugsunarefni í þessari umræðu. Síðan þarf að hækka gjaldskrá ríkisins á næsta ári og þá hækkar það skuldirnar hjá þeim sem eru með verðbætt lán. Af hverju ekki bara að afnema verðbæturnar? Það er sú hugsun sem hvarflar að mér, herra forseti.

Það hefði verið skiljanlegra í mínum huga ef sagt hefði verið: Í ljósi þeirra staðreynda að vímuefnavandinn hefur farið vaxandi hérna og að áfengisneysla, alkóhólneysla, hefur aukist, skulum við nota þessa peninga í forvarnir. Þá erum við komin með 1,1 milljarð í forvarnir, svart á hvítu.

Því hefur verið haldið fram að búið sé að setja 1 milljarð í forvarnir á þessu kjörtímabili en ég hef aldrei séð það neitt skilgreint nánar, náið og niðursett.

Þetta vildi ég segja í umræðunni, herra forseti.