Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:02:11 (1899)

2002-11-28 18:02:11# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér á þessum ágæta degi dregur ríkisstjórnin upp úr pússi sínu frv. sem hefur það að markmiði að auka tekjur ríkissjóðs um 1.100 millj. ef ég skil málið rétt. Nú var svo ástatt fyrir mér á þessum degi að ég gat því miður ekki verið viðstödd framsöguræðu ráðherrans og ber að skoða mál mitt í ljósi þess. Það gæti verið að ég kæmi með einhverjar spurningar eða annað sem þegar hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra.

Maður hlýtur auðvitað fyrst af öllu að gagnrýna meðferð þessa máls, hvað þinginu er eina ferðina enn boðið upp á. Hér á að keyra í gegn tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð á örfáum klukkustundum og ætlast til þess að þingmenn í önnum dagsins hafi svigrúm til þess að mæta á nefndarfundi, kynna sér málið til hlítar og afgreiða það á örfáum klukkustundum. Enn eina ferðina, herra forseti, upplifum við það hér, hv. þm., hvernig ríkisstjórnin misbýður þinginu. Það er það fyrsta sem má segja um þetta mál og eðlilegt að ekki séu samþykkt afbrigði fyrir því, þótt ekki sé nema bara vegna vinnubragðanna, herra forseti.

Það má kannski líka bæta því við varðandi þetta mál, þegar við komum að efni þess, að það er auðvitað líka staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur engin tök á efnahagsmálunum. Ég held að það sé alveg ljóst, herra forseti, það er eðlilegt að draga þá ályktun þegar hún þarf að fara þá leið að draga upp úr pússi sínu tekjuöflunarfrv. til að bæta stöðu ríkissjóðs. Enda sjáum við jólabögglana hrynja hér inn eftir meðferð hv. fjárln. á fjárlagafrv. þar sem verið er að auka verulega útgjöld ríkissjóðs, eins og þessi ríkisstjórn gerir ævinlega rétt fyrir kosningar.

Það sem maður hlýtur að gagnrýna í þessu líka er það að ríkisstjórnin hengir þennan milljarð eða 1.100 millj. sem hún telur sig eiga að fá út úr hækkuninni á það að hún hafi verið að bæta kjör aldraðra. Hvers vegna í ósköpunum er það tengt bættum kjörum aldraðra að hækka þurfi áfengis- og tóbaksgjaldið, hvaða skoðanir sem menn hafa svo sem á því? Af hverju er verið að hengja það við það að verið sé að bæta lítillega kjör aldraðra, færa öldruðum og öryrkjum lítillega til baka af því sem ríkisstjórnin hefur verið að hafa af þeim á undanförnum árum? Það væri auðvitað hægt að hafa langt mál um það.

Hvers vegna í ósköpunum dregur hæstv. fjmrh. það ekki fram að hann þurfi jú kannski að auka svigrúm ríkissjóðs, miðað við útgjöld og tekjur á næsta ári, vegna þess að hann hefur farið of geyst í að lækka skatta á stórfyrirtækin í landinu, lækka skatta á fjármagnseigendur? Og hann er enn iðinn við kolann, hæstv. ráðherra, vegna þess að enn liggur fyrir hv. efh.- og viðskn. frv. sem mun hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs á næsta ári þar sem hæstv. ráðherra er að auka á það ónýtta, yfirfæranlega tap sem fyrirtækin geta nýtt sér með því að færa það úr átta árum í tíu. Þegar á næsta ári mun það hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs upp á sennilega um 200 millj., bara það eina mál. Fyrir utan að það að lækka skatta á fyrirtæki, eins og hæstv. ráðherra er að gera, mun hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs þegar á næsta ári upp á 4 milljarða kr., t.d. að færa skatthlutfallið úr 30% niður í 18%. Þar gengu ráðherrann og ríkisstjórnin miklu lengra en þurfti til þess að fyrirtæki á Íslandi hefðu engu að síður skattalegt forskot á aðrar þjóðir. Það þurfti ekki að ganga nema upp að 25% í að lækka skatta á fyrirtækin, úr 30% í 25% til þess að Ísland héldi sínu skattalega forskoti. En það að fara niður í 18% kostaði ríkissjóð 1.700 millj. meira á næsta ári.

Af hverju í ósköpunum er verið að hengja þennan böggul, þennan tekjuauka sem ríkissjóður er að ná sér í, á það að verið sé að bæta lítillega kjör aldraðra og öryrkja? Mér finnst það bara ósvífni, herra forseti. Ég vil allt eins hengja þetta saman við þau útgjöld sem ríkissjóður og ríkisstjórnin hafa staðið fyrir, útgjöld vegna skattaívilnana og skattalækkana á fyrirtæki sem ganga lengra en góðu hófi gegnir, ekki síst þar sem ríkisstjórnin telur sig aldrei hafa svigrúm til þess að lækka skatta á fólk með lágar og meðaltekjur, ég tala nú ekki um lífeyrisþegana sem skila verulegum hluta til baka af þeirri hækkun á lífeyri sem þeir eiga að fá á næsta ári.

Herra forseti. Ef við komum svo að frv. sem hér er til umræðu --- ég á sæti í efh.- og viðskn. og vil mótmæla því að okkur sé gert það að keyra þetta mál í gegn á örfáum klukkutímum. Það vakna auðvitað ýmsar spurningar að því er þetta mál varðar efnislega fyrir utan þá umgjörð sem þessu máli er búin sem ég drap lítillega á hér fyrr í máli mínu.

Eðlilega stoppa menn við útreikninga á vísitölunni, hvaða áhrif þetta muni hafa á vísitöluna. Hér er borið á borð fyrir okkur í þessu frv., sem ekki lætur mikið yfir sér og ekki er löng greinargerð með, að um sé að ræða innan við 0,3% áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs. Þingmenn hafa haft tök á því og höfðu þá eðlilegu vinnuaðstöðu hér þar til á síðasta þingi að geta leitað til hlutlausra aðila eins og Þjóðhagsstofnunar til þess að meta sannleikann í því sem hér er verið að færa á borð. Við eigum að trúa fjmrh. sem er að reyna að keyra þetta mál í gegn og fjárlagaskrifstofu hans að þetta hafi ekki meiri áhrif en 0,3%. Ég minnist þess á síðasta þingi að hart var deilt þegar við ræddum vísitöluáhrif vegna ýmissa aðgerða sem ríkisstjórnin stóð fyrir á sama tíma í fyrra. Þá var hart deilt um það að Þjóðhagsstofnun lagði mismunandi mat á ýmsar aðgerðir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í heilbrigðiskerfinu og með námsmenn, ef ég man rétt. Annars vegar var deilt um áhrifin og matið sem Þjóðhagsstofnun lagði fram og hins vegar matið sem fjárlagaskrifstofan lagði fram. Þar gátum við tekist á með faglegum rökum um mat á því sem menn töldu að hefði áhrif á það sem ríkisstjórnin var að gera. En nú er okkur boðið upp á það að þiggja hrátt frá fjárlagaskrifstofunni áhrifin af þessu.

Þetta er auðvitað óþolandi aðstaða, herra forseti, fyrir þingmenn og það á svona stuttum tíma að vera boðið upp á slík vinnubrögð. Ef við hefðum haft eðlilegt svigrúm til þess að fjalla um málið hefðum við getað með öðrum hætti nálgast það að reyna á sannleiksgildi þeirra áhrifa sem hér eru upp talin.

Við hljótum t.d. að kalla eftir því í efh.- og viðskn. að ASÍ, sem hefur nú mikilla hagsmuna að gæta í þessu sambandi að því er varðar áhrifin á vísitöluna, leggi sjálfstætt mat á það hvaða áhrif þetta hefur á vísitöluna og þeir fái þá svigrúm til þess að gera það. Og ég spyr um það t.d. hjá hæstv. ráðherra: Hefur hagdeild ASÍ, sem fékk fjárráð með niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar til að efla hagdeild sína, lagt mat á þessi vísitöluáhrif og er hagdeild ASÍ sammála því sem fram kemur hjá fjárlagaskrifstofunni að hér sé um að ræða innan við 0,3% áhrif?

Við hljótum líka að skoða hvaða vísitöluáhrif þetta hefur á skuldastöðu heimilanna, á lán einstaklinga, lán fyrirtækja. Við hljótum að biðja um útreikninga á því. Við erum að tala um gífurlegar skuldir hjá heimilunum sem eru sennilega, ef ég man rétt, einhvers staðar um 700 milljarðar. Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna eru skuldirnar sennilega að nálgast 180%. Við þurfum að fá einstök dæmi um það í efh.- og viðskn. hvaða áhrif þetta hefur til hækkunar ef við tölum um meðalskuldastöðu fjölskyldna í landinu. Við þurfum að fá það útreiknað miðað við mismunandi forsendur. Það er nefnilega ekki allt sem sýnist í þessu sem verið er að leggja á borð fyrir okkur.

Ég býst við að hæstv. fjmrh. hafi reynt að halda því fram áðan að þetta væri innan þess ramma sem menn sömdu um á sínum tíma varðandi rauðu strikin. Maður hlýtur að fara mjög grannt ofan í það í efh.- og viðskn. hvaða afstöðu verkalýðshreyfingin hefur til þessa og hvaða áhrif þetta hefur á vísitöluna og það hljóta að verða kallaðir fyrir nefndina, ekki bara fulltrúar ASÍ heldur einnig BSRB. Ég er að draga hér upp, herra forseti, hve þröngt svigrúm við þingmenn höfum hér, og ég tala nú ekki um efh.- og viðskn., til þess að geta fjallað faglega og efnislega um þessi mál.

Hér hafa nokkrir þingmenn, heyrði ég, aðeins farið yfir áhrifin af þessari breytingu, til hvers hún muni leiða. Mun þetta draga saman verulega í sölu á sterkum vínum og þar með kannski auka eitthvað sölu léttvíns? Hvað er lagt til grundvallar þessum 1.100 millj.? Við þurfum eiginlega að skoða, herra forseti, hvaða forsendur eru á bak við þessar 1.100 millj. Reiknar hæstv. ráðherra og þeir sem mat leggja á þessar 1.100 millj. með að sala á sterkum vínum standi í stað? Hún hefur dregist saman. Samkvæmt því sem fram kom í Morgunblaðinu í dag seljast sterk vín minna en áður. Reiknar hæstv. ráðherra í útreikningum sínum upp á 1.100 millj. með því að sala á sterkum vínum dragist enn meira saman við þetta? Reiknar þá hæstv. ráðherrann út að salan á léttum vínum muni aukast og hvað mikið? Við þurfum að skoða innbyrðis vægið á þeim forsendum sem ráðherrann setur hér fram. Það þýðir ekkert að slengja fram fyrir okkur tölum upp á 1.100 millj. nema við getum skyggnst á bak við þær forsendur sem lagðar eru í þessum útreikningum upp á 1.100 millj.

Nú er þetta svo sannarlega rétt stefna út af fyrir sig, sem ég hygg að flestir geti talað fyrir, að beita ákveðinni verðstýringu til að reyna að hafa áhrif á áfengisneyslu. Það hefur verið reynt að gera það, að lækka verð á léttvínum og halda sterkum vínum í dýrari kantinum. Ég hygg að það sé rétt stefna sem fæstir mótmæla.

[18:15]

Það er annar hlutur, herra forseti, sem við þurfum líka að fara ofan í í efh.- og viðskn. Ég dreg þetta allt upp, herra forseti, til þess að sýna að okkur er ekki gerður mjög léttur leikurinn í því litla tímasvigrúmi sem við höfum til að afgreiða málið. Við hljótum að fara ofan í stöðuna, hvaða áhrif þetta muni hafa að því er varðar vímuefnavarnir þegar verið er að breyta hér verulega verðstýringu á áfengi. Er ekki t.d. æskilegt, herra forseti, að skoða hvort við eigum að nota einhvern hluta af því fjármagni sem hér er verið að hala inn á sterkum vínum til að efla vímuefnavarnir, setja meiri pening til forvarna í vímuefnamálum, í baráttunni gegn áfengis- og vímuefnaneyslu? Þetta þarf auðvitað nefnd að hafa eðlilegt svigrúm til að fjalla um en ekki að ana fram með frv. sem hefur þessi tekjuáhrif. Maður veit ekkert hvað raunverulega er á bak við þessar tölur sem hér eru settar fram eða hvaða áhrif þetta hefur á neysluna og hvaða áhrif þetta hefur á áfengisvarnir sem við hljótum öll að sameinast um að við viljum efla.

Ég spyr t.d. hæstv. ráðherra: Telur hann ekki eðlilegt, þegar verið er að taka svona mikið fjármagn inn á sölu áfengis, að við skoðum hvort það eigi ekki að láta ákveðinn hluta af þessu nú, við afgreiðslu fjárlaga, í forvarnir eða áfengisvarnir? Hefur það verið skoðað af hæstv. ráðherra, hefur hann eitthvað leitt hugann að því að þetta þurfi?

Ég er að reyna að draga það fram að hæstv. ráðherra tali svolítið skýrar að því er varðar vímuefnavarnirnar sem menn hafa komið hér inn á. Mér finnst að við í efh.- og viðskn. ættum að skoða hvernig einstakir ráðherrar, bæði heilbrrh. og dómsmrh., hafa verið að guma af því að á undanförnum árum hafi verulegir fjármunir verið settir í hvers konar vímuefnavarnir. Menn tala um milljarð í því sambandi. Ég vil leyfa mér að draga í efa að það sé rétt. Það hefði verið rétt og eðlilegt að við fulltrúar efh.- og viðskn., við þessar aðstæður sem við erum hér að ræða um, þegar verið er að keyra þetta mál í gegn, hefðum fengið sundurliðun frá dómsmrn. og heilbr.- og trmrn. á því sem varið hefur verið til vímuefnavarna á undanförnum, ja, segjum fjórum árum.

Ég spyr ráðherra og ég biðst afsökunar ef ráðherrann er þá að endurtaka eitthvað af því sem hann sagði áðan: Hefur hæstv. ráðherrann skoðað grannt áhrifin á skuldir heimilanna, hvað þetta hækkar t.d. mánaðarlegar afborganir? Mér finnst við þurfa að fara ofan í það. Það er mjög hart í ári hjá mörgum heimilum nú um stundir, ekki síst hjá tekjulægstu heimilunum sem ríkisstjórnin, með allri virðingu fyrir henni, hefur ekki farið mjög vel með á undanförnum árum. Hún hefur t.d. skert verulega skattleysismörkin, eins og við höfum farið í gegnum, tekið skatt af tekjulægstu hópunum og enn er haldið áfram á þeirri braut. Mér skilst að í því samkomulagi sem var gert við Landssamband aldraðra, um þá litlu hækkun sem lífeyrisþegar fá um næstu áramót, hafi því umsvifalaust verið hent út af borðinu þegar fulltrúar aldraðra vildu ræða það að afnema skattinn á lífeyrisgreiðslurnar.

Margir tekjulágir eru því miður með mjög þunga skuldabyrði og erfið lán. Ég þekki það mjög vel. Á borði mínu eru mörg mál þar sem fólk hefur komið til mín, mjög tekjulágt fólk með mjög erfiða skuldastöðu og vanskil. Þó að þetta sé óskylt mál hjálpar það ekki þessum heimilum ef skuldirnar og þar með afborganir hjá þessum fjölskyldum hækka verulega við þessa breytingu.

Herra forseti. Það er í mörg horn að líta varðandi þetta mál. Það er ekki eins einfalt og menn vilja vera láta. Menn geta bara ekki afgreitt það með þeim hætti að það eigi ekkert að vefjast fyrir þingmönnum að samþykkja þetta mál.

Ég ítreka líka spurningu mína --- því að ég sé að tíma mínum er að ljúka --- til hæstv. fjmrh.: Hvað stendur á bak við þessar 1.100 millj. miðað við sölu, annars vegar á léttum vínum og hins vegar á sterkum vínum? Hvernig er innbyrðis dreifing á sölunni áætluð, svo að við tölum nú bara um fyrir næsta ár? Ég held að það sé mikilvægt að fá það fram. Ég vænti þess að ef hæstv. ráðherra hefur ekki svör við því á reiðum höndum við þessa umræðu sjái hann til þess að embættismenn hans í ráðuneytinu útvegi efh.- og viðskn. þetta fyrir kvöldið ásamt því að við fáum þá útreikninga sem að baki liggja varðandi lánin og að hæstv. ráðherra beiti sér einnig fyrir því, af því að hæstv. heilbrrh. og dómsmrh. eru ekki hér, að það verði þá tekið saman í hans ráðuneyti eða hinum hverju hefur verið varið til vímuefnavarna á undanförnum fjórum árum, sundurliðað eftir ráðuneytum. Loks, herra forseti, vænti ég að við fáum, áður en við hefjum vinnu í efh.- og viðskn., að heyra í hæstv. ráðherra um hvort hann geti fallist á að einhverjum hluta af þeim tekjum sem hér á að afla í ríkissjóð verði varið til vímuefnavarna.

Svo spyr ég hæstv. ráðherra í lokin hvort honum finnist það smekklegt að bendla aldraða og lífeyrisþega við þessa hækkun, eins og hér er gert í greinargerð, og þess vegna þurfi að fara þessa leið. Af hverju tíundaði hann ekki alveg eins önnur útgjöld sem þarf að fara í á næsta ári, t.d. þau skattalegu hlunnindi og ívilnanir sem ráðherrann hæstv. beitir sér fyrir á næsta ári fyrir stórfyrirtækin og auðmenn í þessu landi?