Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:22:29 (1900)

2002-11-28 18:22:29# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ýmislegt hefur komið fram í þessari umræðu, m.a. að það er auðvelt að taka mál sem er tiltölulega einfalt og reyna að drepa því á dreif með því að blanda inn í það umræðum um allt mögulegt. Ég tel að hér sé á ferðinni tiltölulega einfalt mál, mál sem gengur aðallega út á að hækka gjaldtöku á áfengi og tóbaki. Margir þingmenn, m.a. í Samfylkingunni blessaðri sem hér hefur haft sig mikið í frammi, hafa á undanförnum árum ekki bara lagt til heldur krafist þess að þessi gjöld yrðu hækkuð, ekki síst á tóbakinu, og nefnt þar ýmislegt til sögunnar. Þessi gjöld hafa hins vegar verið óbreytt í mörg ár af ýmsum ástæðum.

Nú er staðan hins vegar sú að það er nauðsynlegt að afla ríkissjóði nokkurra tekna. Þá er þessi einfalda leið valin. Af hverju er nauðsynlegt að afla ríkissjóði tekna? Það er vegna þess að að undanförnu, m.a. hér á Alþingi og í ríkisstjórn, höfum við verið að taka ýmsar ákvarðanir um aukin útgjöld. Hér er í dæmaskyni nefnt eitt mál sem menn hafa síðan verið að gera að einhverju aðalatriði í þessari umræðu. Þetta er nefnt sem dæmi, það hefði mátt nefna mörg önnur dæmi --- það er rétt hjá hv. þm. sem hér talaði síðast. Það er nefnt dæmi hér um samkomulagið við aldraða. En það þarf að afla ríkissjóði tekna til að veikja ekki stöðu hans um of, eins og stendur í greinargerðinni. Það er hættulegt að veikja stöðu hans um of. Það getur haft hættulegar efnahagslegar afleiðingar sem þarf ekki að rekja hérna fyrir fólki.

Hins vegar má auðvitað segja, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem talaði hér í upphafi sagði í sinni málefnalegu ræðu um þetta mál, að e.t.v. væri eðlilegast að láta hækkanir á áfengis- og tóbaksgjaldi vera örari þannig að þær drægjust ekki aftur úr almennri verðlagsþróun. Það vill fólk ekki. Það er engin sérstök ástæða til þess að tóbak lækki með árunum í verði og hækki ekki í takt við almenna verðlagsþróun. Margir hafa lagt til, ekki síst úr stjórnarandstöðuflokkunum, að tóbakið hækki miklu meira til þess að reyna að draga úr notkun þess. Það er auðvitað annað sjónarmið og það snertir auðvitað heilbrigðispólitíkina í þessu sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi hér. Það er komið til móts við það sjónarmið í leiðinni með þessu frv. þó að það sé ekki tilefni þess.

Ástæðan fyrir því að beðið er um að þetta sé gert með þeim hætti í þinginu sem ég hef beðið um kom líka mjög skýrt fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér í upphafi. Hann flutti rökin fyrir því mjög vel. Verslun með þessar vörur er þess eðlis að það er nauðsynlegt að ákvarðanir liggi hratt fyrir eigi á annað borð að gera breytingar á gjaldtöku í þessu, hvort sem um er að ræða hækkanir eða lækkanir. Og það þarf ekkert að útskýra þetta fyrir fólki, þetta vita auðvitað allir.

Breytingin frá því sem áður var, t.d. þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sat í ríkisstjórn og fjmrh. í þeirri ríkisstjórn hringdi bara í forstjóra ÁTVR og sagði honum: Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka vínið og tóbakið, er sú að nú er þetta gert með lögum. Þess vegna verðum við, þegar svona aðstaða kemur upp, að hafa hraðar hendur í þinginu. Og eins og fram kom hjá mér áður ræddi ég þetta mál við formenn þingflokka sl. þriðjudag og óskaði eftir því að þetta mál yrði tekið fyrir á morgun, föstudag. (JóhS: Síðastliðinn þriðjudag?) Síðastliðinn þriðjudag, já, eins og ég sagði í upphafsræðu minni ræddi ég þetta við þingflokksformenn og óskaði eftir því að þetta mál yrði rætt hér á morgun en það þótti óheppilegt af öðrum ástæðum. Þess vegna var ákveðið að reyna að gera þetta í dag en hugmynd mín var sú að þessar breytingar kæmu til framkvæmda fyrir mánaðamótin. 1. desember er sem kunnugt er næsti sunnudagur.

Auðvitað óskaði ég eftir trúnaði um þetta mál til að sú staða skapaðist ekki í verslunum og með viðskipti með þessar vörur sem ég lýsti áðan og við viljum koma í veg fyrir, hamstur og annað þess háttar.

Að því er varðar hins vegar vísitöluáhrifin hafa margir orðið til að nefna þau. Það er auðvitað eðlilegt því að vissulega ber að skoða vísitöluáhrif af svona breytingum mjög gaumgæfilega. En það er reyndar mjög einfalt mál að skoða þau. Tóbakið vegur u.þ.b. 1,9% í vísitölunni. Það þýðir að 10% tóbakshækkun hækkar vísitöluna um 0,19%. Áfengi vegur u.þ.b. 1,1% í vísitölunni, ef ég man þetta rétt, sem þýðir að 10% hækkun á öllu áfengi hækkar vísitöluna um 0,11%. Hér er verið að leggja til 12% hækkun á tóbakinu og 10% hækkun á sterku áfengi, sem er miklu minni hluti áfengissölunnar en létta áfengið og bjórinn. Þannig getur fólk séð þetta í hendi sér og reiknað aftan á umslagi hvað þetta er nokkurn veginn mikið. Þetta er innan við 0,3% samkvæmt nákvæmum útreikningum sem gerðir hafa verið í þessu máli. Auðvitað er hægt að fá það allt saman lagt niður fyrir sér í efh.- og viðskn.

Þrátt fyrir þetta --- 0,3% hækkun á vísitölu, sem vonandi mælist þá eftir helgina í vísitölumælingunni ásamt öðrum breytingum sem þá verða, lækkun bensíns væntanlega og fleiri þátta --- bendir allt til þess að hækkun vísitölu neysluverðs á þessu ári verði innan við 2%, um 1,9% mundi ég kannski giska á þó að ég viti það auðvitað ekki á þessari stundu. Launin í landinu hækka hins vegar umtalsvert meira sem betur fer, sem þýðir að kaupmátturinn vex á þessu ári, hann vex stórlega miðað við það sem menn geta vænst við þær aðstæður þegar hagvöxtur er enginn eins og nú á þessu ári.

Þetta er lykilatriðið í þessu frekar en það sem Samfylkingin kýs alltaf að leggja áherslu á, skuldir heimilanna. Þær munu sem sagt hækka um innan við 2% á þessu ári vegna vísitölubreytinga. Og það er auðvitað stórfelldur árangur að það skuli vera búið að koma verðbólgunni niður á það stig núna.

Ef ég man tölurnar rétt er í þessari tekjuöflun, 1.100 millj. kr. tekjuöflun á heilu ári, gert ráð fyrir því að tóbakshækkunin skili u.þ.b. 800 millj. og áfengið 300 millj. En inni í tóbaksverðhækkuninni hefur verið gert ráð fyrir samdrætti af völdum hækkunarinnar um u.þ.b. 3%. Hvort neysla sterkra áfengisdrykkja minnki umfram það sem ella hefði verið vegna þessa er erfitt að fullyrða. Ég tel líklegt að svo verði, já. Ég tel líklegt að það verði breyting á neyslu almennings, úr sterku yfir í létt vín og bjór. Mér finnst það ekkert óeðlileg breyting. Ég fagna henni í sjálfu sér. Ég tel að það sé hollara að drekka léttara vín og bjór en sterkt áfengi þótt við flest hér á okkar aldri höfum alist upp við hitt. (Landbrh.: Hvað veist þú um það?) Ég þekki nú kauða. (Gripið fram í: Guðni sterki.)

[18:30]

En það sem aftur á móti er önnur spurning, og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson beindi til mín, varðar það sem hér segir: ,,Af ýmsum ástæðum er þó talið heppilegra að halda áfengisgjaldi léttra vína og bjórs óbreyttu.``

Hann spurði: Hvað er átt við með þessu? Það sem er náttúrlega átt við með þessu er það að við höfum talið æskilegt að breyta verðhlutfallinu milli sterkra drykkja og léttra til að stýra neyslunni frekar inn í léttari drykki. Það er það sem býr á bak við þetta. Og ég get bætt því við að mér finnst sjálfum að við eigum við hentugt tækifæri að lækka áfengisgjaldið á léttum vínum og bjór, ekki bara til þess að við getum öll drukkið meira af því, heldur líka vegna þess sem einhverjir nefndu í umræðunni að það skipti máli varðandi ferðaþjónustuna. Verðlagning á þeim vörum er því miður úr algjörum takti við það sem er í nálægum löndum. Þetta getum við gert bara með lagabreytingu eins og við erum að meðhöndla núna, þegar við teljum okkur hafa peningalegt svigrúm til þess og þurfum ekkert að bíða eftir neinni tilskipun frá Evrópusambandinu, eins og sumir virðast halda að þurfi að gerast í þessu máli.

Ég tel að það hefði verið mjög óheppilegt að hækka léttu vínin og bjórinn um það sama og sterku vínin núna, jafnvel þótt við séum í tekjuöflun með þessu frv. Það má því líta á þetta sem skref í þeirri viðleitni að auka bilið á milli verðs sterkra drykkja og léttra, þó að eflaust séu einhver mörk um hversu langt er hægt að ganga í því efni.

Ég held því að þingmenn í sjálfu sér, alveg eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, þurfi ekki langan tíma til að átta sig á efni frv. Beðið er um að því verði hraðað vegna eðlis málsins. Til að trufla ekki viðskipti með þær vörur og til að leiða ekki til óeðlilegra viðskiptaviðbragða, þá er beðið um að málinu verði hraðað. Auðvitað er eðlilegt að allir reyni að átta sig á efni málsins, efnið er alveg skýrt. Við erum að reyna að afla ríkissjóði u.þ.b. 1.100 millj. kr. til að styrkja stöðu hans vegna ýmissa þátta sem búið er að ákveða á undanförnum dögum og vikum, bæði í ríkisstjórninni og svo hér á hinu háa Alþingi. Þetta er bara hrein tekjuöflun. En hún hefur að vísu önnur áhrif eins og t.d. varðandi tóbakið sem margir hafa kallað eftir og tengja það heilbrigðisstefnu og svo varðandi verðhlutfallið á milli sterkra og veikra áfengisdrykkja. Ekki sakar að rifja það upp, sem ég gerði í upphafsræðu minni, að þrátt fyrir þessar hækkanir hefur áfengis- og tóbaksgjaldið hækkað mun minna í allmörg ár en almenna neysluvísitalan. Viljum við hafa það þannig? Er það það sem Samfylkingin vill? Ég held reyndar að hún vilji það ekki, enda hefur hún margkallað eftir slíkum breytingum, en af einhverjum ástæðum hentar ekki að samþykkja þetta mál eins og það er nú lagt fyrir eða hraða því. Ég skal ekki segja hver endanleg afstaða manna verður, það hefur ekki komið hér fram.

Menn hafa verið að spyrja spurninga um allt mögulegt sem þessu tengist beint eða óbeint. Ég tel ekki að það sé eðlileg stefna að við látum þessi gjöld dragast aftur úr almennri verðþróun vegna eðlis þess varnings sem hér er um að tefla. Og ég held að ekki séu margir formælendur fyrir því, enda man ég ekki betur en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi í fyrra lagt til hækkun á tóbaksgjaldi í stað annarra breytinga sem þá voru í uppsiglingu.

Síðan vildi ég bæta því við vegna þess að um það var spurt hvort gert hafi verið gert ráð fyrir gjaldtöku þessari í fjárlagafrv. næsta árs. Það var nú reyndar ekki í frv. eins og það er núna, hins vegar er í fjárlögum ársins 2002 gert ráð fyrir að áfengisgjaldið verði hækkað á þessu ári og að af því fáist tekjur upp á 400 millj. kr. Þetta veit ég að einhverjir þingmenn muna frá því í fyrra þegar verið var að ljúka afgreiðslu fjárlaganna, en það hefur hins vegar ekki verið gert. Áfengisgjaldið hefur ekki verið hækkað á þessu ári til samræmis við það sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Það má því segja að að hluta til sé verið að gera það sama hér og þá var talað um, þótt þetta sé aðeins hækkun upp á 300 milljónir en ekki 400 á ársgrundvelli og komi þetta seint á árinu.

Ég held, herra forseti, að ég hafi svarað þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.