Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:36:06 (1901)

2002-11-28 18:36:06# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:36]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh. að þetta mál er í sjálfu sér mjög einfalt. Það er einfaldlega þannig að ríkisstjórnin hefur misst tökin á útgjöldunum, á útgjöldum ríkissjóðs og þess vegna þarf að afla nýrra tekna. Því er farin sú leið að hækka áfengisgjaldið til þess að ná inn 1.100 milljónum. Þetta skildu allir. Það var enginn í vandræðum með að átta sig á þessum þætti málsins. Hins vegar eins og kom fram í umræðunni veltu menn upp þeim áhrifum sem þetta kynni að hafa og í raun og veru þeirri stóru fullyrðingu sem fram kemur í frekar stuttum athugasemdum að verið sé að grafa undan efnahagslegum stöðugleika ef ríkissjóður fær ekki auknar tekjur. Það er ekkert óeðlilegt, virðulegi forseti, að menn velti þessu upp í ljósi þeirrar umræðu sem hér fór fram í gær um þann árangur sem menn vildu hreykja sér af í ríkisfjármálunum.

Það sem vakti líka sérstaka athygli mína í ræðu hæstv. ráðherra var að hann var sí og æ að benda á að aðrir hefðu verið að hugsa um eitthvað svipað eða sambærilegt einhvern tímann í umræðunni. Ekki það að hæstv. ráðherra bæri ábyrgð á því að ríkissjóð vantaði fjármuni. Ekki að hæstv. ráðherra bæri ábyrgð á því að menn hefðu eytt um efni fram. Nei, verið er að benda á að hv. þm. úr hinum og þessum flokkum hafi eitt sinn lagt eitthvað til og því sé ekkert að marka málflutning þeirra. Þetta finnst mér ekki vera málinu til framdráttar.

En ég bar fram eina spurningu til hæstv. ráðherra sérstaklega, sem hann svaraði ekki áðan, og hún er þessi: Hvað mun þessi hækkun, þ.e. tæplega 0,3% eins og kemur fram í athugasemdum, hafa mikil áhrif í krónum á skuldir heimilanna? Ég held að það hljóti að hafa legið fyrir þegar hæstv. ráðherra lagði frv. fram.