Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 18:42:13 (1904)

2002-11-28 18:42:13# 128. lþ. 40.4 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 128. lþ.

[18:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hæstv. fjmrh. viðurkenna að óþarfi hefði verið að blanda lítilli lífeyrishækkun til lífeyrisþega í þetta mál og ég fagna því. Hæstv. ráðherra taldi að þetta hefði ekki áhrif á vísitöluna á þessu ári sem yrði sennilega innan við 2%, eða 1,9% eins og hæstv. ráðherra nefndi.

Þá er spurningin um vísitöluna á næsta ári þegar verðlagsáhrifin af þessu koma að fullu til framkvæmda. Hefur þetta einhver áhrif á verðlagsáhrifin í fjárlagafrv. svo dæmi sé nefnt, ef við tökum næsta ár fyrir? Þetta þurfum við að skoða.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki alveg öllum spurningum sem til hans var beint. Ég spurði hvort hann væri reiðubúinn til einhvers samkomulags um það að einhverjum hluta af þessu, þótt ekki væri stór, yrði varið til vímuefnavarna sem ég held að hljóti að koma til skoðunar í efh.- og viðskn. --- Er ég ekki í andsvari, hæstv. forseti?

(Forseti (HBl): Hv. þm. bað um orðið.)

Nei, ég bað ekki um orðið, þetta er andsvar.

(Forseti (HBl): Hv. þm. veitir andsvar við ræðu hæstv. ráðherra.)

Já, ég spurði um vímuefnavarnir, hvort hæstv. ráðherra væri reiðubúinn til þess að skoða það að veita hluta af þessu í það mikilvæga verkefni allra ríkisstjórna sem eru vímuefnavarnir.

Hæstv. ráðherra nefndi að ég hefði krafist hækkunar á tóbaki á síðasta ári. Það var nú í staðinn fyrir það að hækka skólagjöld og efniskostnað á námsmenn, þannig að við erum að tala þar um ósambærilega hluti í því efni sem ekki er hægt að blanda saman eins og hæstv. ráðherra gerði.

Auðvitað þurfum við að fá miklu betri upplýsingar en hér hafa komið fram um skuldir heimilanna. Mér fannst hæstv. ráðherra heldur ekki nefna áhrifin á söluna hvernig þessar 300 milljónir ættu að dreifast milli sterks víns og léttvíns.