Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 22:07:45 (1908)

2002-11-28 22:07:45# 128. lþ. 41.1 fundur 402. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (hækkun gjalda) frv. 122/2002, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 128. lþ.

[22:07]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta efh.- og viðskn. --- hann skipar ræðumaður og ekki aðrir --- í þessu þjóðþrifamáli sem heldur þinginu uppteknu fram á nótt, sem felur í sér hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi. Ef marka má greinargerð frv. er það hvorki meira né minna en forsenda þess að efnahagslegur stöðugleiki verði varðveittur í landinu að mál þetta nái fram að ganga og munar nú um minna.

Ég tel að það sé gagnrýnivert hvernig ríkisstjórnin stendur að framlagningu þessa frv. Til að mynda fylgdu málinu afar litlar upplýsingar. Það þurfti að draga þær út úr gestum efh.- og viðskn. því að þær er ekki að finna í greinargerð sem er stutt og fátækleg af upplýsingum. Þar eru t.d. engar upplýsingar veittar um þróun áfengis- og tóbaksgjalds sl. ár, hvernig þær upphæðir hafa þróast miðað við verðlag eða annað í þeim dúr.

Þá kom fram á fundum nefndarinnar að ekkert samráð hefði verið haft við einn eða neinn um undirbúning þessa máls, ekki við samtök launafólks eða aðila innan heilbrigðiskerfisins. Reyndar náðist alls ekki í neina slíka til að ráðfæra sig við um málið á þeim skamma tíma sem nefndin hafði til starfa.

Á hinn bóginn er ljóst, herra forseti, og má nefna mörg dæmi því til staðfestu, að menn hafa skilning á því að þegar svona mál eru einu sinni komin fram að æskilegt er að hraða afgreiðslu þeirra. Sagðar voru þær skemmtisögur af hinum reynda forstjóra Áfengis- og tóbakseinkasölunnar að einhvern tímann hefði það lekið út á hinni öldinni að til stæði að hækka brennivínið snemma í desembermánuði og þá tókst þannig til að öll jóla- og áramótasalan fór fram á næstu tveimur sólarhringum og hækkunin kom fyrir lítið þegar hún loksins var prentuð og birt.

Þannig má ætla að ef Alþingi hefði haft þetta frv. til umfjöllunar í nokkra sólarhringa hefði orðið líflegt í áfengisútsölunum næstu daga. Sama hefði þá auðvitað átt við ef boðuð hefði verið lækkun á þessu gjaldi, t.d. 20. desember. Þá hefðu sennilega ekki margir verslað fram að þeim tíma --- (Gripið fram í.) og þó. Þannig að það fer auðvitað eftir því hversu þörfin er brýn eftir því sem hæstv. fjmrh. segir.

Þannig er það, herra forseti, að við þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gerum ekki sérstakar athugasemdir við að málið fái hér skjóta meðferð úr því að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar er búin að ákveða þessa skattahækkun. Hún hefði þá birst mönnum fyrr eða síðar.

Það kemur fram í forsendum málsins, og er út af fyrir sig virðingarvert, að það er ekki reynt að draga dul á að hér er fyrst og fremst um tekjuöflun í ríkissjóð að ræða. Þetta er sem sagt skattahækkunarfrumvarp. Þetta er svona einhvers konar vöggugjöf til ungu drengjanna í Sjálfstæðisflokknum sem streymdu inn í efstu sæti á væntanlegum framboðslistum hér í Reykjavík undir kjörorðinu Lækkum skatta. Við óskum þeim auðvitað innilega til hamingju með þessa vöggugjöf.

Ekki bólar á neinum mótvægisaðgerðum sem auðvitað hefði mátt gera ef menn hefðu viljað tryggja að af þessum breytingum yrðu ekki umtalsverð verðlagsáhrif og þau yrðu ekki til íþyngingar í útgjöldum heimilanna að meðaltali að sjálfsögðu. Neyslan á þessum varningi er misjöfn og þar með auðvitað fyrst og fremst um íþyngjandi aðgerð að ræða og má ætla að verðlagsáhrifin, sem eru metin upp á 0,3% í vísitölu neysluverðs, komi fram að fullu.

Á hitt ber að líta að áfengis- og tóbaksgjöld hafa ýmist lítið hækkað, ekki neitt, jafnvel lækkað síðan 1995 þegar núgildandi lög voru sett. Eftir þá hækkun sem frv. felur í sér mun jafnvel vanta nokkuð upp á að gjöldin hafi fylgt verðlagi að fullu. Um þetta fengust upplýsingar í efh.- og viðskn. Eins og áður sagði, herra forseti, var þær ekki að hafa í greinargerð með frv. né heldur nema að mjög takmörkuðu leyti í framsöguræðu ráðherra. Þar kom sem sagt fram að vísitala neysluverðs hefði hækkað um u.þ.b. 30% frá 1995 til og með dagsins í dag, en áfengis- og tóbaksgjöld um 20--25%, þ.e. á tóbaki og sterku áfengi. Á bjór hefur áfengisgjaldið ekkert hækkað frá 1995. Það hefur staðið í stað í krónutölu og á léttum vínum beinlínis lækkað. Árið 1998 þegar gerðar voru breytingar á þessu fyrirkomulagi var áfengisgjald á léttum vínum eða borðvíni lækkað. Þar vantar á bilinu 30--40% upp á að áfengisgjöldin hafi fylgt verðlagsþróun frá árinu 1995 og ég hygg að þessar staðreyndir, herra forseti, eigi erindi inn í umræðuna hvað sem menn segja um þessa aðgerð að sínu leyti.

Ef maður lítur á málið frá hollustu- og heilbrigðissjónarmiðum, og það er nú væntanlega leyfilegt að gera, er ekki hægt að segja að þessi aðgerð sé óeðlileg sem slík, þ.e. ef menn telja að gjöldin hafi verið einhvers staðar nálægt réttu róli að raungildi eins og þau voru 1995 og miðað við daginn í dag.

Hitt er alveg ljóst að það er afar óæskilegt og gagnrýnivert að svona gjaldtaka sé ekki látin fylgja verðlaginu jafnt og þétt og hækkuð jafnóðum á ári hverju eins og aðrar breytur af þessu tagi. Satt best að segja skil ég ekki hvers vegna þetta hefur gengið svona til, að þessi mikli slaki hafi komið í þetta úr því að í ljós kemur eftir allt saman að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er síður en svo andvíg því að hækka þessi gjöld eins og þessi aðgerð ber með sér. Þá má náttúrlega spyrja: Hvers vegna var það ekki gert í jöfnum áföngum á þessu árabili, eða var þetta bara sleifarlag, gleymska eða eitthvað annað?

Auðvitað er enn óheppilegra, herra forseti, að taka stór stökk af þessu tagi þegar aðstæður kunna að vera þannig að verðlagsmál séu viðkvæm. Það hafa þær sannarlega verið að undanförnu. Menn minnast aðgerða sem gripið var til fyrir ekki löngu síðan til þess að reyna að ná verðlagsþróun inn fyrir rauð strik. Menn hættu við hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarps og einhverja fyrirhugaða brennivínshækkun sem boðuð var á þessu ári, einmitt til þess að hemja verðlagið innan rauðra strika.

Þess vegna finnst mönnum kannski að nú sé ríkisstjórnin að koma aftan að þeim og sæta færis með lúalegu lagi, að gera þetta núna sisvona óforvarandis og næstum að segja í skjóli myrkurs, vantar ekkert nema rafmagnið fari af aftur hérna, herra forseti, til að hægt væri að segja þetta hrein myrkraverk.

Ekki meira um það, herra forseti. Þetta frv. er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og auðvitað nátengt afgreiðslu fjárlagafrv. sem við höfum gert margvíslegar athugasemdir við, lagst gegn í vissum greinum og flutt við brtt. í öðrum.

Það er því niðurstaða okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að það sé ríkisstjórnarinnar að bera ábyrgð á afgreiðslu málsins og verði henni að góðu.