Sala ríkisbankanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:07:33 (1913)

2002-12-02 15:07:33# 128. lþ. 43.1 fundur 284#B sala ríkisbankanna# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Út af þessu síðasta þá er það ekki krafa sem reist er á íslenskum lögum, að yfirtökutilboð þurfi að gera vegna þessara kaupa til þeirra sem þar áttu hlut að.

Ég vil einnig undirstrika og árétta í annað sinn að það hefur ekki orðið neinn greiðsludráttur af hálfu kaupenda sem rekja mætti til þess að þeir hafi ekki þá fjármuni sem þeir hafa gefið til kynna að þeir hafi. Enginn slíkur dráttur hefur átt sér stað. Málið fer í réttan farveg, áreiðanleikakönnun. Aðilar koma að bönkunum hvor með sínum hættinum og fá að fara yfir alla þessa þætti sem eðlilegt er. Þeir eru ekki krafnir um greiðslu og þeir fá engin hlutabréf fyrr en þessi þáttur er frágenginn. Við eigum ekki að láta að því liggja að eitthvað óeðlilegt sé í gangi hjá kaupendunum. Það hefur ekkert slíkt komið fram og ekkert sem gefur tilefni til að draga slíkar ályktanir.