Kræklingarækt

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:16:51 (1922)

2002-12-02 15:16:51# 128. lþ. 43.1 fundur 286#B kræklingarækt# (óundirbúin fsp.), GAK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að ræða málefni kræklingaræktenda. Skipuleg ræktun kræklings í atvinnuskyni á sér mörg hundruð ára sögu en hérlendis hefur tæpast verið um mikla rækt að ræða fyrr en á síðustu árum. Þó var gerð tilraun á árunum 1985--1987 í Hvalfirði.

Umfang markaðar fyrir krækling er um 600 þús. tonn á ári. Síðustu ár hafa allmargir fengist við tilraunir til ræktunar kræklings hér við land. Mjög erfiðlega hefur gengið að fá stuðning til starfsins hjá opinberum aðilum og nauðsynlegt tilrauna- og þróunarstarf hefur því liðið fyrir fjárskort. Til þess að ræktun af þessu tagi geti gengið þarf að þróa aðferðir og búnað eftir þeim aðstæðum sem ríkja á hverjum stað. Í öllu frumkvöðlastarfi má búast við afföllum og áföllum.

Nú er svo komið að flestir þeir sem hófu þessar tilraunir hafa gefist upp. Við blasir sú hætta að þeir fáu sem eftir eru fari sömu leiðina og þá muni tapast sú þekking sem þeir hafa aflað. Við þessu þarf að bregðast og eðlilegast væri að þeir þrír eða fjórir sem eftir eru fái stuðning til þess að halda starfinu áfram. Þannig mundi nýtast sú reynsla sem þeir hafa þegar aflað. Allir sem unnið hafa að þessu hafa gert það fyrir eigið fé.

Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að hlúa að frumkvöðlastarfi og nýjum atvinnugreinum, einkum á landsbyggðinni. Með það að leiðarljósi hafa ræktendur sótt víða um stuðning, m.a. hjá Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóði og sjútvrn., en yfirleitt talað fyrir daufum eyrum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Vill ráðherrann beita sér fyrir því að möguleikar til kræklingaræktar hér við land verði kannaðir í framhaldi af reynslu síðustu ára? Telur hann ekki eðlilegt að tilraunir af þessum toga verði skilgreindar sem frumkvöðlastarf og studdar samkvæmt því? Vill ráðherrann beita sér fyrir því að styrkir verði veittir þegar á næstu fjárlögum til þeirra aðila sem nú stunda kræklingarækt? Og að lokum: Verður kræklingaræktinni fundinn farvegur innan sjútvrn. eða verður hún áfram á vettvangi Veiðimálastofnunar?