Vegaframkvæmdir í Reykjavík

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:27:35 (1930)

2002-12-02 15:27:35# 128. lþ. 43.1 fundur 287#B vegaframkvæmdir í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka samgrh. fyrir svör við spurningum mínum. Hins vegar vakna aðrar spurningar þegar málið er rætt, þ.e. í fyrsta lagi hver sé afstaða meiri hluta Reykjavíkurborgar til þessara tveggja mála.

Nú hefur þetta mál verið í umræðunni um nokkurra ára skeið. Varðandi mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þá sjá náttúrlega allir sem koma til borgarinnar á álagstímum eða fara þessa leið úr borginni í hvað stefnir. Það stefnir í algert óefni ef þessu máli verður ekki hraðað svo fljótt sem mögulegt er. Sama á við Ártúnsbrekkuna. Þar er geysilegt umferðarálag og þar er sama sagan. Því væri gott að fá svar frá hæstv. samgrh. Hver er afstaða borgarinnar og hversu mikinn metnað leggur borgin eða núverandi meiri hluti stjórnar Reykjavíkurborgar í að reyna að klára þetta mál sem hefur verið í umræðunni hér í mörg ár?