Vegaframkvæmdir í Reykjavík

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:28:47 (1931)

2002-12-02 15:28:47# 128. lþ. 43.1 fundur 287#B vegaframkvæmdir í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég get ekki svarað hér fyrir stjórnendur Reykjavíkurborgar. En það liggur hins vegar ekki endanlega fyrir hvaða tillögur verða gerðar hvað varðar Sundabrautina inn í umhverfismatið. Þó er alveg ljóst að kostirnir eru margir og misdýrir. Ég á von á því að reynt verði að ná samkomulagi milli Vegagerðarinnar og borgaryfirvalda um þá leið sem þarna verður valin. En ef ágreiningur verður þá þarf auðvitað að taka á því. Við þurfum að velja hagstæða kosti en engu að síður kosti sem uppfylla þær kröfur sem við gerum fyrir umferðina.

Ég vil undirstrika það sérstaklega að sem betur fer eru ekki stórkostleg vandamál í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu miðað við það sem þekkist í stærri borgum og bæjum í nágrannalöndunum. Það er ekki neitt neyðarástand. Við höfum því enn nokkurn tíma til þess að undirbúa Sundabrautina.