Vegaframkvæmdir í Reykjavík

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:30:16 (1932)

2002-12-02 15:30:16# 128. lþ. 43.1 fundur 287#B vegaframkvæmdir í Reykjavík# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka samgrh. enn fyrir þessi svör en það sem ég er að leggja áherslu á er að málið er grafalvarlegt hvað snýr að Ártúnsbrekku og Miklubraut/Kringlumýrarbraut því að við Reykvíkingar sem förum þessar leiðir verðum varir við vaxandi þunga umferðar og það er vaxandi hætta á umferðarslysum í þessu ástandi eins og það er.

Ég spurði hvernig samstarf væri milli samgrn. og meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkurborgar í því efni vegna þess að Reykvíkingum finnst að þetta mál hafi tekið allt of langan tíma. Það hlýtur að stafa af einhverju öðru en því að verið sé að vinna í málinu af miklum krafti. Eins og fram hefur komið er deilt um staðsetningu Sundabrautar, hvar brú eigi að liggja yfir og það hefur líka verið til langs tíma deilt um mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það höfum við séð í umræðum í borgarstjórn þannig að hér er afar brýnt mál sem þingmenn Reykjavíkur hljóta allir að leggjast á eitt um að hrinda í framkvæmd sem fyrst.