Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:55:56 (1944)

2002-12-02 15:55:56# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er á ferðinni heildarlöggjöf um skoðanir og eftirlit með skipum og gott að það skuli vera hér til meðferðar og endurnýjunar.

Við snöggan lestur á þessu frv. rak ég augun í málsgrein í 11. gr. sem ég fann enga sérstakar skýringar við í texta frv. nema mér hafi yfirsést það. Þessi málsgrein er svohljóðandi:

,,Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni skuli skoðuð af Siglingastofnun Íslands með reglulegu millibili.``

Mig langaði einfaldlega að vita hvaða hugsun er þarna á bak við. Er t.d. verið að segja að það megi taka upp þá reglu að skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni séu ekki skoðuð árlega heldur, t.d. á tveggja eða þriggja ára fresti? Eru menn þarna að hugsa um að það fari að einhverju leyti eftir notkun skipanna, notkunartíma? Við vitum að til er þó nokkur fjöldi skipa sem ekki eru notuð í atvinnurekstri en sumir nota skipin mikið og aðrir lítið og aðrir ferðast eingöngu innan fjarða og flóa o.s.frv. Mönnum hefur á undanförnum árum stundum fundist að eftirlit með þessum skipum væri nokkuð dýrt og umfangsmikið. Þess vegna langar mig að fá nánari skýringu á þessum texta og því hvernig þessi skoðun er hugsuð.