Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 15:58:08 (1945)

2002-12-02 15:58:08# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. vekur athygli á því sem kemur fram í 2. mgr. 11. gr. um skoðun skipa. Eins og fram kom í framsöguræðu minni er lögð mikil áhersla á að eftirlit með skipum, þ.e. skoðun skipa sé regluleg en þó þannig að þar séu frávik. Aðallega snýst þetta um þau skip sem nýtt eru í atvinnuskyni. Hins vegar er ljóst að skip sem ekki eru nýtt í atvinnuskyni eru á floti og í notkun. Það er talið nauðsynlegt að hafa möguleika á að skoða slík skip reglulega. Út á það gengur þetta ákvæði og er gert ráð fyrir því að um það sé nánar fjallað í reglugerð sem gefin verði út.

Ég tel að ætlunin sé ekki að standa fyrir því að hamla notkun slíkra skipa heldur fyrst og fremst að skapa heimild til að sinna eftirliti með þeim skipum sem ekki eru notuð í atvinnuskyni. Ég vil undirstrika það.