Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:00:05 (1946)

2002-12-02 16:00:05# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Í 1. gr. þessa lagafrv. segir, með leyfi forseta:

,,Markmið þessara laga er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega og efla varnir gegn mengun sjávar. Þessu markmiði skal náð með því að gera tilteknar kröfur um gerð og búnað skipa, skoðun skipa og eftirlit með þeim.``

Mér sýnist í fljótu bragði, og ég bið nefndarmenn að gæta vel að því þegar þeir fara að fjalla um þetta mál, að frv. gangi út á tvennt, þ.e. í fyrsta lagi að draga verulega úr því að skoða íslensk skip, líklega sleppa út heilum flokki skipa, þ.e. skipum sem ekki eru notuð í atvinnuskyni. Það geta verið skemmtibátar og aðrir slíkir. Ég hef ekki farið nægilega vel yfir frv. til að vita það nákvæmlega. En ég sé ástæðu til þess að menn skoði gaumgæfilega hvort þörf sé á því.

Í öðru lagi virðist mér frv. ganga út á það að fækka mjög skoðunum á skipum sem nýtt eru í atvinnuskyni, þ.e. að aðalskoðun fari ekki fram nema á fimm ára fresti. Það vekur athygli mína að einungis er talað um það í frv. að þetta gæti hugsanlega sparað Siglingastofnun 7 millj. á ári sem er í raun einskis virði hvað fjármuni varðar þegar það er haft í huga hvort verið er að veikja eftirlit með skipum. Ég bið þess vegna nefndarmenn að fara varlega yfir þetta og skoða vegna þess að eins og er er krafan sú að skip fái haffæriskírteini á hverju ári, þ.e. að einu sinni á ári fari menn í gegnum aðalskoðun með skip sín. Það kann vel að vera að samsetning þeirra skoðunarforma sem verið er að tala hér um tryggi að eftirlitið sé í raun allt að því sambærilegt því sem nú er. Þó held ég að það geti varla verið vegna þess að mér sýnist að það verði a.m.k. tvö ár á milli skoðana nema menn beiti skyndiskoðunum. Ég skil reyndar ekki það sem stendur í frv. um aðalskoðun á fimm ára fresti og síðan milliskoðun á tveggja ára fresti. Ég hefði talið að það hefði þurft að hafa annan hátt á ártölunum ef menn ætluðu sér að skipta sér af skipunum annað hvert ár.

Þetta vil ég gjarnan biðja hæstv. ráðherra að útskýra betur. Ég tel aðalatriði þessa máls að menn veiki ekki eftirlit með skipum. Ég hef fram að þessu staðið í þeirri trú, og það hefur verið stefna Siglingastofnunar Íslands, að gera ætti meiri kröfur um öryggi skipa hér en gerðar eru í löndunum í kringum okkur og fyrir því hafa verið sterk rök. Hér sækja menn sjó í miklu verra veðri en yfirleitt annars staðar. Ef við skoðum skip af ýmsu tagi sem eru flutt hingað til landsins annars staðar frá kemur ævinlega í ljós að menn vilja gera breytingar til að bæta skipin þegar þau koma til Íslands. Menn vilja betri aðstæður og meira öryggi í skipum á Íslandi. Það er engin spurning að það þarf að gá að sér hvað varðar þetta mál.

Síðan vil ég vekja athygli á öðru hér og bið hæstv. ráðherra að fara betur yfir það með okkur, þ.e. 10. gr. frv. Í henni er heimild til Siglingastofnunar um að fela alla skoðun skipa og eftirlit öðrum aðilum. Þetta þýðir að hægt er að taka ákvörðun um að einkavæða algjörlega eftirlit með skipum. Nú getur vel verið að menn hafi þá skoðun og stefnu og þá er líka eins gott að það komi fram. Ég tel að það sé a.m.k. lágmarkið að menn hafi aðra stefnuna uppi en ekki báðar. Ef menn ætla sér að veikja Siglingastofnun Íslands með því að taka í burtu hluta af núverandi starfsemi hennar þá er alveg eins gott að menn gangi alla leið og geri Siglingastofnun að eftirlitsstofnun. Ég er ekki að mæla með því hér. Ég tel að eftirlit með skipum á Íslandi sé ekki það mikið starf að ástæða sé til að skipta því upp og dreifa því í hendur skoðunarstofa eða eftirlitsaðila með þeim hætti. Við höfum aldeilis dæmi um spor sem hræða í þessu efni þegar menn fundu upp á því að leggja niður eftirlit í sjávarútveginum með framleiðslu á fiski og því sem þar var unnið. Áður fylgdist ein eftirlitsstofnun á vegum ríkisins með þessu. En þær urðu átta þegar búið var að koma á skoðunarstofunum og mörg ár tók að minnka fækka þeim aftur í einhverja skynsemi. Menn keyrðu hver á eftir öðrum allt í kringum landið til þess að skoða skip, fiskvinnslustöðvar og annað slíkt.

Ég tel ekki hollt fyrir öryggi íslenska skipastólsins að hluta Siglingastofnun niður og dreifa verkefnum hennar tvist og bast. Það er ekki það stórt verkefni að fylgjast með þessu og mjög nauðsynlegt er að hafa heildaryfirsýn og faglega stjórn á þessu eftirliti í heilu lagi. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef fullar efasemdir um þessi tvö mál sem ég hef aðallega rætt. Annars vegar er þessi breyting á eftirlitinu sem ég sé ekki að sé hægt að rökstyðja með neinum hætti með tilvísun til reglna sem gilda annars staðar. Okkur er algjörlega fært að halda uppi betra eftirliti hjá okkur ef við kjósum að gera svo vegna aðstæðna hér. Við þurfum ekki að láta reglur á EES-svæðinu skammta okkur eitthvað minna öryggi en við höfum kosið sjálf að þróa. Ég held því ekki fram að ekki megi breyta eftirliti skipa í neinu og að megi ekki fara yfir málið. En ég vil vekja athygli á þessu og tel fulla ástæðu til að koma þessum skilaboðum til nefndarinnar og biðja hana um að kalla til þá sem best þekkja til frá Siglingastofnun og aðra aðila, útgerðarmenn og fleiri, til ráðslags um hvort það sé allt saman mjög skynsamlegt sem í frv. er. Ég skal svo sem ekki útiloka að ýmislegt skynsamlegt geti verið í frv. En mér finnst við fyrsta yfirlestur að ástæða sé til að skoða það vandlega.