Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:19:32 (1951)

2002-12-02 16:19:32# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um eftirlit með skipum sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir. Ég vil taka undir áhyggjur hv. þm. Jóhanns Ársælssonar varðandi 10. gr. þar sem greinilega er verið að undirbúa að einkavæða og framselja verkefni Siglingastofnunar við skoðun á skipum. Það getur varla verið gert út í bláinn. Ég vil því inna hæstv. samgrh. eftir því hver ætlunin sé. Hvaða aðilar eru hafðir í huga þegar slíkt vald og eftirlit er framselt? Annars væri ekki verið að setja þetta inn.

Einnig er verið að festa í lög ákveðna skattheimtu, beinlínis skattheimtu á þessari þjónustu og með því að framselja hana síðan til þriðja aðila, einkavæða hana, þá er í rauninni verið að einkavæða heimild til þess að senda reikning á ríkissjóð.

Þá vil ég spyrja um 15. gr., um skyndiskoðun skipa. Þeirri grein lýkur þannig, með leyfi forseta:

,,Siglingastofnun Íslands getur falið Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum aðila framkvæmd eftirlits á hafi úti.``

Fyrir hverju erum við að opna, virðulegi forseti? ,,Öðrum aðilum`` verði ótiltekið falið að annast þetta mikilvæga eftirlit, eftirlit sem skiptir miklu máli hvað varðar öryggi sjómanna og einnig tryggingamál, bæði sjómanna og skipa.