Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:21:58 (1952)

2002-12-02 16:21:58# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:21]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna vegna þessa andsvars og athugasemdar um 15. gr., að ég vil vísa til þess sem segir í skýringum við 15. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Með 3. mgr. er Siglingastofnun Íslands veitt heimild til þess að fela Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum aðila framkvæmd skyndiskoðunar á hafi úti. Er þetta í samræmi við gildandi lög og framkvæmdina undanfarin ár og hefur verið gott samstarf milli þessara tveggja ríkisstofnana í þessu efni og sérstakur samstarfssamningur í gildi.``

Hvað varðar það ákvæði að óhætt sé að fela öðrum aðila en Landhelgisgæslunni, þá er ekki neinn sérstakur aðili þarna sem miðað er við, heldur opnað fyrir það að ef um er að ræða samstarfssamninga við aðra aðila sem geta sinnt þessu, þá sé það heimilt.

Að öðru leyti tel ég að ég hafi verið búinn að svara því sem fram kom hjá hv. þm. í andsvarinu þegar ég svaraði hv. þm. Jóhanni Ársælssyni.