Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:35:05 (1956)

2002-12-02 16:35:05# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki frekar en síðasti ræðumaður að lengja umræðuna, en þó er rétt að taka fram nokkur atriði vegna ummæla hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Í sambandi við 10. gr. og hvernig hv. þm. tengir hana við einkavæðingu þá kemur skýrt fram í skýringu með 10. gr. hvað verið er að tala um. Eins og verið hefur á umliðnum árum hefur Siglingastofnun leitað til aðila með sérþekkingu t.d. varðandi gúmmíbjörgunarbáta og sleppibúnað björgunarbáta, slökkvitæki og fleira sem mætti upp telja.

Auk þess má nefna þegar verið er að tala um skoðanir að Ísland er aðili að svokölluðu Port State Control sem segir að 25% þeirra erlendu skipa sem koma í íslenskar hafnir verða skoðuð af íslenskum aðilum sem sjá um slíkar skipaskoðanir.

Ég tek eftir því að í frv. er talað um að ráðherra geti sett reglugerð varðandi skoðun skemmtibáta en mjög algengt er erlendis, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, að ekki er sett nein reglugerð um skoðun skemmtibáta af hálfu ríkisins, heldur eru það viðkomandi klúbbar sem skemmtibátar tilheyra sem sjá um að skemmtibátarnir séu í lagi og má segja að það sé einkavæðing og er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér.

Ef talað er við starfsmenn Siglingastofnunar, þá segja þeir: Af hverju förum við ekki með skoðunarkerfi okkar í sama farveg og Bifreiðaskoðun ríkisins gerði með það kerfi sem við þekkjum varðandi eftirlit með bifreiðum hér á landi? Það hefur reynst ágætlega og ég heyri ekki betur en almenningur sé almennt ánægður með þá breytingu sem var gerð á því fyrirtæki.

En allt um það. Eins og hér hefur komið fram höfum við í samgn. náttúrlega tíma til að skoða og fara yfir þetta. Ég held að við ættum ekki að eyða meiri tíma hér úr ræðustóli Alþingis til að fjalla um þetta mál, svo ítarlega og vel sem við munum gera það í samgn.

En frv. er þarft og nauðsynlegt að taka það til yfirferðar með tilliti til þess umhverfis sem við lifum og hrærumst í og svo mjög breyttra tíma hvað áhrærir skipaskoðanir og almennt eftirlit með skipum. Við munum því skoða þetta í nefndinni, herra forseti.