Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:38:17 (1957)

2002-12-02 16:38:17# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sit í samgn. og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson er formaður samgn. og við munum taka þetta mál rækilega fyrir þar.

Það sem hvatti mig aðeins til að koma í andsvar var þegar hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vísaði til góðrar reynslu varðandi bifreiðaskoðanir á undanförnum árum. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að fátt eigi sér nú dapurlegri feril en einkavæðingin á bifreiðaskoðununum. Meðan þetta var opinber skoðun var hún víða um land og góð þjónusta, en eftir að hún var einkavædd, fyrst hálfeinkavædd og svo einkavædd, þá fór þjónustan heldur að daprast og varð æ meiri fyrirhöfn fyrir neytendur að fá þá þjónustu. Ég hef það á tilfinningunni og mig minnir að nú sé verið að draga þetta aftur inn til ríkisins, þannig að ríkið taki aftur til sín stóran hluta af ábyrgð á bifreiðaskoðun. Við erum því að einhverju leyti búin að fara þar í hring.

En ég vona að við séum ekki að sigla skipaskoðunum í sama dapurlega farveginn og við erum búin að upplifa á bifreiðaskoðununum á undanförnum árum, virðulegi forseti, ég vona það svo sannarlega.