Eftirlit með skipum

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:43:22 (1960)

2002-12-02 16:43:22# 128. lþ. 43.4 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins út af þeim umræðum sem hér hafa orðið. Mér finnst að við þurfum að gæta allrar varkárni við að færa eftirlit með skipum frá Siglingastofnun. Ég held að á undanförnum árum hafi ríkt nokkuð góð sátt um hvernig staðið hefur verið að eftirliti með skipum og að starfsmenn stofnunarinnar vítt og breitt um landið hafi annast þau störf af samviskusemi og kostgæfni.

Ég tel reyndar að ekki verði saman jafnað skoðun á bíl og skipi eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði í andsvari áðan. Það er náttúrlega einfaldlega þannig að við keyrum bílana á einhverja ákveðna skoðunarstofu, en skipin eru skoðuð vítt og breitt í höfnum, enda tiltók hv. þm. það áðan að því væri auðvitað ekki saman að jafna.

Fjöldamörg ákvæði eru í frv. sem segja fyrir um hversu miklar kröfur eru gerðar til öryggis. Það má t.d. leggja farbann á skip beinlínis út frá öryggissjónarmiði. Ýmsir aðilar geta átt rétt á því að krefjast farbanns.

Síðan eru mjög skýr fyrirmæli um upplýsingaskyldu, þ.e. löggæslumenn, hafnaryfirvöld, leiðsögumenn, hafnsögumenn, tollgæslumenn, trúnaðarmenn skipverja, starfsmenn tryggingarfélaga, lögskráningarstjórar sem fá vitneskju um ef lögin eða reglur settar samkvæmt þeim eru brotin eða telja að ástæða sé til að ætla að skip sé ekki haffært o.s.frv.

Eftirlit með skipum er mikið öryggismál og ég vil eindregið hvetja til þess. Ég veit að frv. verður skoðað mjög gaumgæfilega í hv. samgn. og að við förum varlega í að stíga einhver skref sem gætu síðar orðið til þess að menn segðu sem svo að vegna breytinga á lagaumhverfinu hefði ekki gætt nægilegs öryggis.

Þetta er eiginlega það sem ég vildi sagt hafa. Málið á eftir að fá góða umfjöllun í hv. nefnd og á eftir að koma hér aftur til 2. umr. og síðan vonandi 3. En að meginstofni til held ég að það frv. sem hér er verið að leggja fram sé vel unnið, en hvet til þess að ýmis þau atriði sem hér hafa komið fram í umræðunni verði gaumgæfilega skoðuð.