Vinnutími sjómanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:51:23 (1962)

2002-12-02 16:51:23# 128. lþ. 43.5 fundur 390. mál: #A vinnutími sjómanna# (EES-reglur) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði sem mér finnst þurfa athugunar við. Það varðar aldurstakmarkið. Hér segir í athugasemdum við 1. gr.:

,,Hér er lagt til að ekki megi hafa yngri mann en 16 ára við vinnu á skipum, en í gildandi lögum er miðað við 15 ára aldur í þessu efni. Þessi breyting tekur til allra skipa sem notuð eru í atvinnuskyni og er í samræmi við ákvæði í 6. gr. Evrópusamnings um skipulag á vinnutíma sjómanna á kaupskipum.``

Sjálfsagt er ekkert við það að athuga að við förum að því sem við höfum undirgengist. En síðan segir:

,,Jafnframt er lagt til að miðað verði við 16 ár hvað varðar önnur skip sem notuð eru í atvinnuskyni, þar með talin fiskiskip.``

Ég verð að segja að mér finnst þetta nokkur afturför að sumu leyti, þ.e. af því að við gerum engan greinarmun í lagatextanum eða túlkun hans varðandi hlutverk skipa, eingöngu að þetta séu fiskiskip og notuð í því skyni.

Ég hef jafnan talið að hægt væri að gera ákveðinn greinarmun á skipum eftir veiðiaðferðum. Ég hef t.d. ævinlega talið óþolandi og óverjandi að einn maður væri á skipi við togveiðar, eins og hefur einstaka sinnum komið fyrir, t.d. við rækjuveiðar, þar sem miklir vélkraftar eru notaðir við vinnuna uppi á dekki. Mér finnst hins vegar snúið, herra forseti, að vita til þess að 15 ára stráklingur megi ekki fara á grásleppu með einhverjum gömlum manni.