Vinnutími sjómanna

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 16:54:31 (1964)

2002-12-02 16:54:31# 128. lþ. 43.5 fundur 390. mál: #A vinnutími sjómanna# (EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[16:54]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið skondið og hálfdapurlegt að verða hér að hlusta á mælt fyrir lögum þar sem kveðið er á um að 14 og 15 ára unglingar megi ekki fara á sjó, þó ekki væri nema til grásleppu úti fyrir löndum sínum. Þetta hljómar framandi fyrir okkur sem erum uppalin við þetta sem hluta af hinu daglega lífi, að fara á sjó á grunnslóð. Ég tel að það ætti að skoða þetta mál örlítið betur.

Enginn hér mælir gegn því að einhverjar takmarkanir séu á því að unglingar undir 18 ára aldri megi vera á sjó. En það er spurning hvort ekki megi finna leið, t.d. við ákveðnar veiðar og í ákveðinni fjarlægð frá ströndum landsins, til þess að þeir mættu vera á sjó.

Þetta er hluti af því að ala upp sjómannastétt. Ég hugsa að flestir sem nú eru í sjómannastétt landsins eigi sér þennan bakgrunn. Ég hygg að ef þessi lög verða innleidd óbreytt verði æ erfiðara að manna flotann. Ég býst við að skilgreining á skólaskipum eða æfingaskipum sé það þröng að það mætti ekki tengja það þarna inn.

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að þarna ætti að huga að því hvort ekki mætti hafa ákveðnar undanþágur eftir veiðiaðferðum, eftir staðsetningu, til að við getum haldið hér nokkurn veginn eðlilegu íslensku samfélagi.