Vaktstöð siglinga

Mánudaginn 02. desember 2002, kl. 17:03:08 (1966)

2002-12-02 17:03:08# 128. lþ. 43.6 fundur 392. mál: #A vaktstöð siglinga# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 128. lþ.

[17:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir um vaktstöð siglinga tekur á eftirlitskerfi, öryggismálum og löggæsluhlutverki varðandi siglingar kringum landið og til fleiri þátta.

Herra forseti. Hér vekur athygli það sem kemur fram í umsögn fjmrn. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót vaktstöð siglinga skipa um íslenska efnahagslögsögu. Verði frumvarpið að lögum mun Siglingastofnun Íslands annast framkvæmd laganna en gert er ráð fyrir að rekstur vaktstöðvarinnar, ásamt tilkynningarskyldu íslenskra skipa, verði boðinn út og lög nr. 40/1977, um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, og lög nr. 34/1993, um leiðsögu skipa, falli úr gildi.``

Hérna er enn á ný verið að flytja frv. sem beinlínis hafa það að markmiði að bjóða út, einkavæða öryggismál við strendur Íslands. Einnig kemur fram í umsögn fjmrn. að gert er ráð fyrir aukninni kostnaðarhlutdeild, auknum kostnaði, að þetta verði sem sagt innheimt með þjónustugjöldum. Enn er verið að opna á það að lögboðin eftirlitsskylda sé boðin út og að viðkomandi einkaaðili eða sá sem fær það geti síðan sent reikninginn á ríkið.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. samgrh.: Er búið að ákveða hverjir eiga að fá þessa vakstöð siglinga eða hvernig verður háttað einkavæðingarferli þess sem hér er verið að leggja til?