2002-12-03 13:57:19# 128. lþ. 44.94 fundur 291#B leiðtogafundurinn í Prag og þátttaka Íslands í hernaðarstarfsemi á vegum NATO# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsríkjanna í Prag fyrir skömmu var mikill áfangi í þeirri sögu sem við höfum séð nágranna okkar í austri ganga í gegnum, þegar sjö ný ríki fengu boð um aðild að Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal þau þrjú ríki við Eystrasalt sem við höfum lagt mesta áherslu á að fái væntingar sínar uppfylltar, nái að ganga inn í samfélag vestrænna þjóða sem við töldum þær tilheyra áður, enda höfum við lengi litið á þær sem grannþjóðir okkar og nánast bræðraþjóðir.

Að öðru leyti voru teknar ákvarðanir sem skipta mjög miklu fyrir framtíð þeirra ríkja sem eru aðilar að bandalaginu, sérstaklega um aðferðir til þess að bregðast við hættuástandi ef upp kann að koma. Raunar er þetta lokaáfangi á umræðum og undirbúningi sem staðið hefur um árabil, allt frá lokum kalda stríðsins. Einmitt þá var vakin á því athygli að með lokum þess mundu vakna færi fyrir minni harðstjóra og hermdarverkamenn til að ráðast á Vesturlönd og önnur ríki stöðugleika og lýðræðis. Og það hefur einmitt gengið eftir nú síðustu ár. Sú aðvörun, þótt gömul sé, hefur því reynst sönn.

Dæmin eru einföld. Við þekkjum ástandið sem verið hefur í Júgóslavíu undanfarna mánuði og missiri og við þekkjum vel árásirnar á Bandaríkin fyrir rúmu ári síðan.

Það skiptir miklu máli, herra forseti, þegar við lítum á það sem verið er að ákveða innan Atlantshafsbandalagsins, að meðan Bandaríkin ákváðu fyrir nokkrum árum, nærri áratug, að einhenda sér í að breyta skipulagi varnarliðssveita sinna ákváðu flest Evrópuríkin að draga úr framlögum til varnarmála. Það er það sem í dag er kallað gjáin milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Ef grannt er skoðað kemur í ljós að þau Evrópuríki sem ákváðu þetta eru nánast öll innan Evrópusambandsins enda kom í ljós þegar hættuástand skapaðist í Júgóslavíu og Evrópusambandið ætlaði að bregðast við að það hafði enga burði til þess. Til þess þurfti önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

Það hefur líka komið í ljós, herra forseti, að það er einkum NATO sem Sameinuðu þjóðirnar treysta á þegar öryggisráðið eða aðrar samkundur Sameinuðu þjóðanna ákveða að reyna að stilla til friðar. Aðilar utan Atlantshafsbandalagsins hafa ekki burði til þess.