Breyting á XV. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:26:33 (1991)

2002-12-03 14:26:33# 128. lþ. 44.6 fundur 394. mál: #A breyting á XV. viðauka við EES-samninginn# (aðstoð til menntunar, ríkisaðstoð til fyrirtækja) þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmönnum að hér er um mjög merkilegt mál að ræða. Það varpar mjög góðu ljósi á hvers konar aðstoð er heimil í sambandi við fyrirtæki af þessari stærðargráðu. Hér er um fyrirtæki að ræða sem teljast stór á íslenskan mælikvarða en lítil og meðalstór fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða. Það er ekki þar með sagt að við höfum fjármuni til að styðja þau fyrirtæki sem hér um ræðir með þeim hætti sem hér er heimilt. Ég veit ekki nein dæmi þess að við höfum gengið lengra í þeim efnum en hér um ræðir. Ég held að það sé öfugt, að á vettvangi Evrópusambandsins og í aðildarríkjum sé gengið miklu lengra en gengur og gerist hjá okkur.

Auðvitað eru þetta góðar viðmiðanir sem hér eru, fyrir þá sjóði sem starfa á þessum vettvangi, þ.e. fyrir Byggðastofnun og þróunarsjóði sem starfa að því að efla íslenskt atvinnulíf. Hér er m.a. sá mælikvarði sem uppbyggingarsjóðir Evrópusambandsins þurfa að starfa innan. En nú er verið að gera kröfur um að við greiðum verulegar fjárhæðir til þessara sjóða án þess að fá neitt á móti. Ef við berum saman þá aðstoð sem almennt er veitt til fyrirtækja af þessari stærðargráðu hjá okkur annars vegar og víða í Evrópu hins vegar tel ég ljóst að þar er oft mikill munur á. Stefnan er, í þeim atvinnugreinum sem eiga undir högg að sækja, t.d. í landbúnaði, í þeim ríkjum sem eru að ganga inn í Evrópusambandið, að heimila að fara út í margvíslegar stuðningsaðgerðir á öðrum sviðum til að skapa ný atvinnutækifæri fyrir þá aðila sem af einhverjum ástæðum eiga undir högg að sækja þegar atvinna er lögð niður vegna hinnar frjálsu samkeppni sem er innleidd.

Hér er almennt um að ræða reglur sem taldar eru heimilar á þeim grundvelli að um einsleitan sameiginlegan markað sé að ræða þar sem ekki er heimilt að styðja fyrirtæki nema með sambærilegum hætti. Ég held að fullyrða megi að við séum almennt langt innan þeirra marka, eins og skýrt kemur fram í því skjali sem hérna er. Að því leyti tel ég málið athyglisvert. Það ætti að vera til þess fallið að eyða þeim misskilningi að ríkisaðstoð sé með öllu aflögð í löndum Evrópu.

Eitt þeirra mála sem komið hefur sérstaklega til skoðunar af þessu tilefni eru málefni Íslenskrar erfðagreiningar, sem komu til umfjöllunar á síðasta þingi. Það er dæmi um mál sem spurningar vakna um, þ.e. um hvernig það falli undir ákvæði um ríkisaðstoð, þó að það falli, eftir því sem ég best veit, ekki undir skilgreininguna um lítil og meðalstór fyrirtæki því að þar er um stærra fyrirtæki að ræða. Ég tek undir það að hér er um mál að ræða sem þarfnast athygli og væri mikilvægt að þingmenn kynntu sér vel. Með því að fara yfir það sjá menn viðhorfin í Evrópu til stuðningsaðgerða við atvinnurekstur.