Samningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Singapúr

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:34:39 (1993)

2002-12-03 14:34:39# 128. lþ. 44.8 fundur 400. mál: #A samningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Singapúr# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heimild til handa ríkisstjórninni til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og lýðveldisins Singapúr sem undirritaður var á Egilsstöðum 26. júní 2002. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem gerður er milli Evrópuríkja og ríkis í Austur-Asíu. Markar hann tímamót í samskiptum milli Evrópu og Asíu og getur rutt brautina fyrir samvinnu við önnur ríki í þessum heimshluta. Samningurinn er víðtækasti fríverslunarsamningur sem EFTA-ríkin hafa gert til þessa. Því var um mikil tímamót að ræða þegar þessi samningur var undirritaður hér á landi síðasta sumar.

Fríverslunarsamningurinn kveður á um tollfrjáls viðskipti með iðnaðarvörur, þar með talinn fisk og aðrar sjávarafurðir, frá og með gildistöku samningsins. Auk vöruviðskipta tekur samningurinn til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa, samkeppnismála og hugverkaréttinda. Er m.a. kveðið á um aðgang fjárfesta í EFTA-ríkjunum og í Singapúr að mörkuðum hvers annars og vernd fjárfestinga. Efnisþættir um vernd fjárfesta eru í samræmi við þá sem að jafnaði finnast í tvíhliða fjárfestingarsamningum milli ríkja sem eru mjög algengir.

Í samningnum eru gerðar miklar kröfur um vernd hugverkaréttar og veitir hann vernd umfram það sem gert er ráð fyrir í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkaréttindi í viðskiptum og öðrum alþjóðasáttmálum og samningum. Samhliða þessum fríverslunarsamningum gerðu EFTA-ríkin hvert og eitt tvíhliða landbúnaðarsamninga um tollalækkanir á ýmsum óunnum landbúnaðarvörum eins og tíðkast hefur við gerð fríverslunarsamninga. Að samningnum við Singapúr meðtöldum hafa EFTA-ríkin gert fríverslunarsamninga við 19 ríki, þ.e. Búlgaríu, Eistland, Frelsissamtök Palestínu, Ísrael, Jórdaníu, Króatíu, Lettland, Litháen, Makedóníu, Marokkó, Mexíkó, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland. Samningaviðræður við Chile eru langt komnar og er ráðgert að þeim ljúki á næsta ári. Einnig standa yfir samningaviðræður við Egyptaland og Túnis og áætlað er að hefja samningaviðræður við Suður-Afríku á næsta ári. Auk þeirra landa sem hér eru talin hafa átt sér stað um nokkurt skeið samningaviðræður við Kanada sem við gerum okkur enn vonir um að geti lokið á næsta ári þó að við höfum vonast til að ná þeim samningum nokkurn tíma.

Ég vil, herra forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að tillögunni verði vísað til hv. utanrmn.