Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:42:18 (1995)

2002-12-03 14:42:18# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég gagnrýni hversu seint þetta frv. er fram komið. Öllum hefur verið það ljóst síðan á síðasta þingi að til þessa þyrfti að koma ef lögin um Umhverfisstofnun ættu að taka gildi 1. janúar 2003. Það er alveg ljóst að nú ætlar hæstv. umhvrh. þingnefndinni, hv. umhvn., að afgreiða þetta mál á örfáum dögum. Mér telst svo til að það séu tveir fundir eftir hjá hv. umhvn. þangað til þingið fer í jólafrí. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að það er allsendis ónógur tími til að skoða þær viðamiklu breytingar sem gera á.

Hér er um að ræða breytingar á fjöldanum öllum af lögum, eins og fram kom í máli hæstv. umhvrh. Ég lýsi því yfir að ég tortryggi ákveðnar breytingar sem verið er að gera, t.d. breytingarnar á lögum um dýravernd. Ég er ekki sannfærð um það, með því að lesa í gegnum um þetta frv., að rétt sé að leggja niður dýraverndarráð. Ég er heldur ekki sannfærð um að stefnumótandi mál, sem hæstv. umhvrh. segir að eigi að leggja fyrir Búnaðarfélag Íslands, Dýralæknafélag Íslands og áhuga- og hagsmunasamtök á sviði dýraverndar, komi í stað dýraverndarráðs. Þetta er eitt dæmi sem ég vildi nefna, herra forseti.

Ég verð einnig að segja, varðandi stjórnsýsluna sem hefur heyrt undir Breiðafjarðarnefndina, að vera kann að þar þurfi líka að skoða vel í hv. nefnd hvernig breytingarnar á lögunum um vernd Breiðafjarðar koma heim og saman við markmið þeirrar nefndar.

Auk þessa eru viðamiklar breytingar lagðar til í frv., herra forseti, á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þar er m.a. verið að bæta inn skilgreiningum, þ.e. nýrri orðskýringu í lögin. Þær viðamiklu breytingar þurfa að mínu mati góða skoðun í nefndinni. Ég ítreka það, herra forseti, að hér finnst mér flausturslega að verki staðið. Það er hins vegar algerlega í takt við það þegar lögin um Umhverfisstofnun fóru í gegn síðastliðið vor. Þar var flausturslega unnið. Ég gagnrýni hæstv. umhvrh. og umhvrn. fyrir að leggja ekki þessar tillögur um breytingar fram fyrr. Okkur er búið að vera ljóst síðan í vor að þær yrðu að koma til.