Verkefni Umhverfisstofnunar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:44:57 (1996)

2002-12-03 14:44:57# 128. lþ. 44.9 fundur 405. mál: #A verkefni Umhverfisstofnunar# (breyting ýmissa laga) frv. 164/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Stjórnarandstaðan gagnrýndi á síðasta þingi að þetta mál hefði ekki verið betur undirbúið. Við bentum á að það þyrfti að breyta fjölmörgum lögum, sem verið er að gera tillögu um að verði gert núna. Það er hins vegar ljóst að það er ekki góð aðferð ef ekki á að gefa kost á að fara yfir þessar breytingar, hvað þá ef ekki á að senda þetta frv. út og fá umfjöllun um það í nefnd með venjubundnum hætti. Ég tel nauðsynlegt að taka sér til þess tíma. Ég sé ekki að neinn stórkostlegur skaði verði af því að þessi lög öðlist ekki gildi nú þegar.

Í frv. er ýmislegt sem er algjörlega sjálfsagt og verður örugglega enginn ágreiningur um. Hins vegar getur ýmislegt verið á ferðinni í frv. sem skoða þarf nánar.

[14:45]

Ég tek eftir því að sumt er nú tekið til baka sem menn ætluðu sér í fyrra. Það er t.d. búið að vekja upp hreindýraráð sem í fyrra var talið algerlega óþarft og ætti bara að leggja niður. Ég fagna því, ég tel að full ástæða sé til þess að hafa þá umfjöllun áfram sem þar hefur farið fram. Fleira er hér á ferðinni sem mætti eða þyrfti að skoða betur og ég trúi því að í nefndinni verði unnið að því. Ég nefni það t.d. að verið er að hækka veiðikort úr 1.900 kr. í 2.200 kr. Það er enn ein hækkunin þessa dagana sem bætist inn í verðskrúfuna sem virðist vera að fara af stað í þjóðfélaginu.

En ég kem upp fyrst og fremst til að lýsa óánægju minni með að frv. hafi ekki komið fram fyrr en þetta ef meiningin var allan tímann að það yrði afgreitt fyrir jólahlé. Ég tel einsýnt að það verði að senda það út nú þegar til þeirra aðila sem málið varðar og menn verði þá að skoða það hvort einhver möguleiki er á því að lögfesta það á síðustu dögum fyrir jól, enda óljóst hvenær þinghlé hefst. Þó að gert sé ráð fyrir á áætlun að þinghlé verði um miðjan mánuðinn hefur það æðioft dregist að hv. Alþingi færi heim. Ég hef því þennan fyrirvara við afgreiðslu málsins, að mönnum takist að ræða við helstu aðila sem þarna eiga hlut að máli, bæði áhugaaðila og bókstaflega hagsmunaaðila hvað varðar ýmsa lagasetningu sem hér er á ferðinni.

Það er ekki eins og verið sé að fást við neitt smámál. Verið er að stofna Umhverfisstofnun og þetta er sá lagagrunnur sem á að byggja á eftir mjög hraða afgreiðslu á frv. sem var mjög einfalt og hraðsoðið og fór hér í gegn á síðasta þingi, þá virðast menn ætla að taka sér enn þá minni tíma til að ganga frá heildarlöggjöfinni sem á að fjalla um þessa stofnun. Það er ekki til eftirbreytni og ég tel að full ástæða sé til að menn andi rólega og taki þetta mál með fyrirvara og gefi mönnum tækifæri til að spyrja þeirra spurninga sem þarf að spyrja og fara yfir þau atriði sem komin eru til viðbótar við það sem menn ræddu á síðasta þingvetri og að vanda verði til málanna með öllu móti.