Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 15:50:09 (2018)

2002-12-03 15:50:09# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Mér heyrist að hv. þingmenn sem hér hafa talað séu svona í stórum dráttum sáttir við frv. Þó hafa menn misjafnar skoðanir á einstökum atriðum.

Hér hafa komið fram athugasemdir við það að mega selja innfluttar rjúpur, þ.e. rjúpur t.d. frá Grænlandi. Sumir hafa efasemdir um að rétt sé að heimila það. En ég vil taka fram af því tilefni að þær aðgerðir sem við erum að grípa til hér eru til verndar íslenska rjúpnastofninum en ekki rjúpnastofni annarra landa þannig að það eru ákveðin rök með því að menn banni ekki innflutning á rjúpum frá öðrum löndum ef þetta er vara sem menn vilja kaupa á markaði, sem hún er.

Hins vegar skil ég það að auðvitað er ófært ef aðilar fara að selja hér íslenskar rjúpur sem grænlenskar. Því þarf að tryggja að hægt sé að rekja uppruna rjúpnanna. Það kemur fram í frv. að menn þurfa að geta sannað að rjúpurnar séu ekki íslenskar og að ekki sé verið að svindla á banninu á sölu á íslenskum rjúpum. Þetta er því eitthvað sem umhvn. þarf að sjálfsögðu að skoða.

Ef mikil brögð verða að því að menn svindli á þessu, sem ég hef svo sem enga ástæðu til að ætla, þá þarf að grípa til þess að banna líka innflutninginn. En við leggjum það ekki til í frv. af því að við teljum að hægt sé að tryggja eftirlitið með þeim hætti að hægt sé að komast að uppruna rjúpnanna, þ.e. þannig að ekki sé hægt að selja þær íslensku sem erlendar.

Í máli hv. þm. Sigríðar Ingvarsdóttur kom líka fram að hún telji að betra sé að stytta veiðitímann enn frekar. Hún hafði efasemdir um sölubannið og taldi að menn ættu að byrja að veiða 1. nóvember, sem sagt stytta veiðitímann að framan, byrja seinna.

Ýmsar kenningar eru til um veiðitímann. Sumir vilja stytta hann að framan. Aðrir vilja stytta hann að aftan. Þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var umhvrh. stytti hann veiðitímann að aftan. Það mæltist reyndar afar illa fyrir í samfélaginu. Sú aðgerð var heldur ekki gerð í samráði við t.d. hagsmunasamtök eins og Skotvís. Við höfum reynt að vera í mjög góðu samráði við þá að þessu sinni um þetta mál. Ég hef lagt mikla áherslu á það.

Þeir sem telja að stytta eigi tímann að framan færa fram þau rök sem hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir flutti hér, þ.e. að þá sé rjúpan í hópum á láglendi, hún sjáist vel í umhverfinu o.s.frv., að hægt sé að ganga að henni og þetta sé nánast eins og hænsnaskytterí og ég veit ekki hvað og hvað menn draga fram í umræðunni. Hins vegar segja aðrir, sérstaklega ýmsir náttúrufræðingar, að náttúruleg afföll séu mjög mikil í upphafi hausts, þ.e. í upphafi veiðitímans, og þess vegna sé eðlilegt að þá sé skotið af því þær deyi hvort eð er út af náttúrulegum afföllum og því sé eðlilegt að menn skjóti í upphafi veiðitímans. Þetta kom m.a. fram á rjúpnaráðstefnunni sem Skotvís hélt í haust þar sem voru ýmsir fræðingar erlendis frá sem hafa mikið vit á rjúpu. Þeir voru ekki sammála því að stytta veiðitímann að framan vegna þess að þá væri veiðistofninn stærstur og mestar líkur á því að hann gæti bætt sér upp veiðiafföllin með því að draga úr náttúrulegum afföllum á móti. Það eru því misvísandi kenningar sem menn bera á borð. Aðrir segja að eðlilegt sé að stytta tímann að aftan. Rökin fyrir því eru að stofninn sem lifir seint á tímabilinu, þ.e. rétt fyrir jól eða í desember, sé sterkasti stofninn og þess vegna beri að hlífa honum og að ekki eigi að veiða úr honum. Á meðan segja aðrir að það sé svo erfitt að veiða á þessum tíma, dagurinn sé stuttur og að ekkert þurfi að hafa áhyggjur af því, menn séu nánast að skjóta í myrkri eins og hér var sagt.

Við ákváðum eftir að hafa skoðað þetta að stytta veiðitímann á hvorum enda, þ.e. við tökum tíu daga framan af og tíu daga aftan af. Eins og hér kom fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Ingvarsdóttur þá er rétt að við höfum tilkynnt að við ætlum að gera það. Það þarf enga lagabreytingu til. Það er bara gert með reglugerð. Við munum stytta veiðitímann á næsta ári og gildir það í fimm ár. Menn vita þá alveg að hverju þeir ganga þannig að t.d. bændur sem selja veiðimönnum gistingu vita þá fyrir fram hvernig þessu verður háttað næstu árin. Þetta er fimm ára prógramm.

Það kom líka fram að hv. þm. Sigríður Ingvarsdóttir var ánægð vegna þess að ráðherra hefði ákveðið að sleppa því að ,,krumpa hólkana`` eins og það var orðað hérna. Það er rétt. Þessi hugmynd kom fyrst fram þar sem ég sá hana í áliti nefndar sem ég setti á laggirnar til að skoða til hvaða aðgerða við ættum að grípa ef við þyrftum að grípa til aðgerða vegna gæsaveiða og rjúpnaveiða. Þá kom fram í gæsakafla þess álits --- Sigmar B. Hauksson var formaður í þeirri nefnd --- sú hugmynd og tillaga um að ,,krumpa hólkana``, þ.e. gera varnanlegar breytingar á magasínunum þannig að ekki væri hægt að pumpa út mörgum skotum í röð úr fjölskotabyssum. Við skoðuðum þetta varðandi rjúpuna og ég hafði í hyggju fyrst að leggja þetta til. Síðan þegar við vorum búin að skoða þetta betur --- við vorum í samráði við ýmsa aðila vegna þessa --- ákvað ég að falla frá því að þessu sinni. Mér finnst samt að það komi til greina síðar. En ég féll frá því m.a. vegna þess að menn segja mér sem telja sig þekkja vel til þessara mála að þessi aðgerð hefði mun meiri áhrif á gæsaveiðarnar en rjúpnaveiðarnar. Það ætti því frekar að koma til skoðunar ef menn vilja grípa til takmörkunar á gæsaveiðum. Það tæki trúlega talsverðan tíma að gera þetta. Reyndar eru misvísandi upplýsingar um það. Sumir segja eitt ár. Aðrir segja tvö til fjögur ár. Að þessu öllu vegnu ákvað ég því að fara ekki fram með slíka breytingu, þ.e. varanlegar breytingar á byssum landsmanna vegna rjúpunnar. En ég vil ekki útiloka að það verði gert í framtíðinni. Þetta hefur verið gert í öðrum löndum þannig að það er ekki eins og menn séu að finna hér upp nýtt mál.

Hér var líka minnst á hundana. Það mál skoðuðum við líka. Sumir hafa talið að það mundi breyta miklu að banna alla hunda við veiðar. En þetta er kannski ekki alveg svona einfalt. Tvær tegundir af hundum eru notaðar við veiðar, þ.e. svokallaðir bendarar og svokallaðir sækjarar. Sækjararnir eru má segja æskilegir í veiðiskap og meira að segja er skylda á sumum svæðum í Noregi að nota sækjara af því að veiðin getur týnst ef hún er ekki sótt af hundum. Bendarar eru hins vegar ekki mjög æskilegir í veiðum af því að þeir benda veiðimanninum á bráðina. Hann fær því mjög mikla aðstoð með því og kemst yfir stærra svæði.

Eftir að hafa skoðað þetta teljum við að hér sé ekki um vandamál að ræða. Veiðimenn nota ekki mikið hunda. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra þá hefur hann skoðað hvað þessir svokölluðu hundaveiðimenn veiða miðað við aðra, en það er ekki munur þar á þannig að hundaveiðimennirnir eru ekki að veiða meira. Við ákváðum því að taka það ekki inn í frv. að banna hundana, m.a. vegna þess að um er að ræða tvær tegundir af hundum. Önnur er æskileg, hin ekki. Við teljum að þetta sé ekki það mikið vandamál að til sérstakra aðgerða þurfi að grípa vegna þessa.

Hv. þm. Jón Bjarnason flutti líka ræðu. Ég átta mig nú ekki alveg á sumu sem þar kom fram. Þingmaðurinn fann mjög mikið að sölubanninu. Ég átta mig ekki á því hvort hann er mótfallinn sölubanninu. En það er alveg ljóst að Náttúrufræðistofnun Íslands og Skotvís styðja þetta sölubann og mun fleiri. Ég tel því að til þess beri að grípa.

Hv. þm. spurði líka um blý. Ég tel ekki útilokað að við grípum til einhverra aðgerða varðandi það í framtíðinni. En það eru engar tillögur um neitt slíkt á leiðinni og blý er ekki í sérstakri skoðun núna í ráðuneytinu.

[16:00]

Hér var komið inn á að styrkja þyrfti eftirlitið. Verði þetta frv. að lögum verður að mínu mati einfaldara að hafa eftirlit með skotveiðum af snjósleðum og fjórhjólum. Nú er það þannig sums staðar, er manni sagt, að talsvert er um að veiðimenn fari um á snjósleðum og fjórhjólum. Þessir menn komast um allt og það er jafnvel svo að veiðimenn ganga til rjúpna þegar fram hjá blússa snjósleðar eða fjórhjól með veiðimenn til að skjóta á svæðum sem aðrir ætla sér á en komast hægar yfir. Ég tel brýnt að taka þetta fastari tökum og eftirlitið verður einfaldara þegar þetta frv. hefur verið samþykkt.

Hér kom líka fram það sjónarmið hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur sem tengist þessu, að vélsleðarnir komast um allt. Þetta er eitt af því sem okkur hefur verið bent á, að vegna þess að menn búa yfir meiri tækni komast menn á fleiri staði en áður og hraðar yfir. Þess vegna eru fá griðarsvæði eftir fyrir rjúpuna. Erlendis hefur verið gripið til þess ráðs að setja upp verndarsvæði, bara griðarsvæði, sem menn fara ekki inn á. Þau eru höfð á veiðislóð þannig að svæðið verður eins og mósaík, veiðisvæði með griðasvæði inni á milli þar sem ekki er veitt. Þar eru einhvers konar uppeldisstöðvar fyrir rjúpuna. Þetta hefur verið prófað í Noregi og kom m.a. fram á ráðstefnunni um rjúpnaveiðar og rjúpnarannsóknir sem Skotvís hélt á Grand Hóteli um daginn.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar ágætu umræður. Ég vil draga sérstaklega fram að lokum eins og í upphafi, að við fengum tillögurnar í haust og að mínu mati höfum við farið vel yfir þær. Með þessu er í fyrsta sinn verið að grípa til víðtækra aðgerða til verndar rjúpnastofninum. Þetta eru víðtækar aðgerðir, ekki einhverjar skyndiaðgerðir sem eiga að standa í stuttan tíma og eru einangraðar við eitt atriði. Þetta eru víðtækar aðgerðir sem eiga að standa í fimm ár. Það er verið að tala um sölubannið, styttingu á veiðitíma og algjört bann við veiðum af snjósleðum og fjórhjólum þannig að einfaldara sé að hafa eftirlit. Það er verið að stækka mikið friðaða svæðið hér í nágrenni höfuðborgarinnar, þar sem menn fá ekki að veiða.

Að mínu mati hefur tekist mjög vel til. Það er almenn sátt um þetta frv. og engir hagsmunahópar að því er mér virðist sem eru afar reiðir yfir þeim aðgerðum sem við erum að grípa til. Ég er nokkuð ánægð með þessa niðurstöðu og tel að við stígum mjög mikið framfaraspor fyrir afkomu rjúpnastofnsins í framtíðinni. Það segja mér líka þeir fræðingar sem við höfum átt mjög gott samstarf við. Við höfum fengið mikla hjálp frá sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands, bæði Ólafi Nielsen og Kristni Hauki Skarphéðinssyni. Hér er um víðtækar aðgerðir að ræða á fimm ára tímabili sem ættu að reisa rjúpnastofninn við. Að sjálfsögðu verður fylgst með rjúpnastofninum á þessu tímabili. Menn geta síðan endurskoðað aðgerðirnar að þeim tíma loknum.