Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:03:53 (2019)

2002-12-03 16:03:53# 128. lþ. 44.10 fundur 404. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (sala á rjúpu o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Vissulega er ástand rjúpnastofnsins alvarlegt. Það rennur mér til rifja hvernig komið er fyrir þeim stofni. Ýmsar leiðir eru til að bjarga honum eins og menn hafa nefnt hér. Það hefur ekki verið minnst á, ekki svo ég hafi tekið eftir, að refur og minkur tekur náttúrlega sinn skammt. Kannski hafa minnkandi veiðar á þeim dýrum haft sín áhrif.

Ég held hins vegar að sölubannið gangi hreinlega ekki, herra forseti. Ég vil vísa því til hv. nefndar, sem fær málið til umsagnar, hvort það brjóti ekki gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Það er nefnilega þannig að það er ekki bannað að veiða. Menn mega veiða þess vegna 50 rjúpur. Þar með eru þeir orðnir eigendur þeirra rjúpna. En síðan mega þeir ekki selja þessar eigur sínar. Ég held að það fáist bara ekki staðist.

Ég vil að hv. nefnd skoði mjög ítarlega og varlega hvort þetta fáist staðist eiganrréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem við þingmenn höfum svarið eið að og þurfum að gæta í hvívetna. Ég vil að menn standi mjög harðir á því að víkja hvergi frá stjórnarskránni, jafnvel ekki í því að selja nokkur stykki af rjúpum. Þessu vil ég beina til hv. nefndar sem fær frv. til umfjöllunar.