Húsaleigubætur

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:18:52 (2024)

2002-12-03 16:18:52# 128. lþ. 44.12 fundur 43. mál: #A húsaleigubætur# (foreldrar með sameiginlega forsjá o.fl.) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:18]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Flutningsmenn þessa frv. ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Sú breyting sem við leggjum til á lögunum um húsaleigubætur er tvíþætt. Annars vegar snýr hún að foreldrum sem fara með sameiginlega forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit og jafnan rétt þeirra beggja til húsaleigubóta. Hins vegar snýr breytingin að réttindum námsmanna sem dvelja utan stúdentagarða eða heimavista og leigja þar herbergi með sameiginlegri eldhús- og snyrtiaðstöðu.

1. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Foreldrar sem fara með sameiginlega forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit eiga bæði rétt til bóta vegna barnsins óháð lögheimili þess.``

Í dag er réttur þess foreldris sem barnið á lögheimili hjá ríkari heldur en hins foreldrisins þó þeir sinni barninu ef til vill jafnmikið Hér er sem sagt lagt til að réttur foreldranna verði óháður lögheimili barnsins.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir að 5. mgr. 7. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1.--4. mgr. um íbúðarhúsnæði hafa eftirtaldir rétt til húsaleigubóta:

1. fatlaðir sem búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða,

2. námsmenn sem eru í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigja á heimavist eða á námsgörðum eða herbergi með sameiginlegri eldhús- og snyrtiaðstöðu.``

3. gr. er gildistökugrein, um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Við erum sem sagt að leggja til tvenns konar breytingar á lögum um húsaleigubætur. Eins og ég sagði áðan snýr fyrri breytingin að foreldrum sem eftir skilnað eða sambúðarslit eru með sameiginlega forsjá barns eða barna sinna, en eins og lögin eru nú getur aðeins foreldrið sem barnið eða börnin eiga lögheimili hjá fengið viðbótarhúsaleigubætur. Foreldrið sem er einnig með forsjána en barnið býr ekki hjá þarf að geta sinnt börnum sínum til jafns við hitt foreldrið en fær þessa viðbót ekki. Reynslan hefur sýnt að þetta hefur gert foreldrum, sem barn er ekki með lögheimili hjá, erfitt fyrir að rækja þær skyldur sem felast í sameiginlegri forsjá. Til að jafna mun foreldra hvað þetta varðar er þessi breyting lögð til. Félagsmálayfirvöld í Reykjavík hafa bent á að þörf væri á breytingu í þessa veru og auk þess hafa einstæðir foreldrar, sem eru í þeirri aðstöðu að börn þeirra eru ekki með lögheimili hjá þeim, en þeir eru með sameiginlega forsjá, komið að máli við mig og bent mér á hvað aðstaða þeirra er að mörgu leyti verri, sérstaklega þeirra sem eru illa staddir fjárhagslega fyrir.

Hin breytingin snýr að námsmönnum, en með lagabreytingu frá 16. maí 2001 er nemendum í framhalds- og háskólum mismunað. Námsmenn á heimavist eða stúdentagörðum öðluðust rétt á húsaleigubótum þótt þeir byggju í herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði. Nú er það svo að námsmenn hafa ekki allir kost á slíku húsnæði og verða þá að leigja sér sambærilegt húsnæði annars staðar, sem er almennt mun dýrara en garður eða heimavist, en þeir fá ekki húsaleigubætur samkvæmt núgildandi lögum. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk í dag frá stúdentaráði eru um 600 námsmenn á biðlista eftir húsnæði á stúdentagarði. Það er tala frá því í haust. Gera má ráð fyrir að stór hluti þeirra leigi húsnæði á almennum markaði og þá einhverjir við svipaðar aðstæður og félagar þeirra sem eru á stúdentagarði, þ.e. þeir leigja herbergi og deila eldhúsi eða salernisaðstöðu með öðrum. En þeir nemendur sem leigja mun dýrara verði úti í bæ eiga ekki rétt á húsaleigubótum eins og félagar þeirra sem leigja ódýrar á stúdentagörðum.

Þarna er sem sagt verið að mismuna námsmönnum og telja flutningsmenn að nauðsynlegt sé að bæta úr þessu óréttlæti með þeim lagabreytingum sem við leggjum til í frumvarpi.

Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en fékk þá ekki afgreiðslu.

Vissulega væri ástæða til þess að líta til fleiri hópa. En þarna er a.m.k. tveim hópum mjög mismunað í þessum undanþáguákvæðum í húsaleigubótunum, þ.e. námsmenn og síðan foreldrar með sameiginlega forsjá barns eða barna sinna eftir skilnað eða sambúðarslit og standa ekki jafnfætis öðrum gagnvart húsaleigubótunum.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, en fer fram á það að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.