Strandsiglingar

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 17:07:25 (2030)

2002-12-03 17:07:25# 128. lþ. 44.15 fundur 47. mál: #A strandsiglingar# þál., Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um strandsiglingar en flutningsmenn auk mín eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Tillagan hjóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd, strandsiglinganefnd, er hafi það hlutverk að kanna þróun, stöðu og æskilega framtíðarhlutdeild strandsiglinga í vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Nefndin láti gera úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land séu öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og öðru sem máli skiptir. Strandsiglinganefnd skili niðurstöðum sínum til Alþingis fyrir 1. október 2003, ásamt tillögum um leiðir til að efla strandsiglingar eftir því sem niðurstöður nefndarinnar gefa tilefni til. Markmiðið sé að strandsiglingar verði raunhæfar og samkeppnisfærar borið saman við landflutninga, sérstaklega með tilliti til þungaflutninga.``

Herra forseti. Þessi tillaga er afar tímabær. Nú er verið að vinna að samræmdri samgönguáætlun sem á að flétta saman og taka í eitt siglingar á sjó og flutninga á landi, bæði á vörum og fólki og einnig líka flutninga í lofti. Því er mikilvægt að strandsiglingarnar komi inn í slíka heildarumfjöllun um framtíðarskipulag samgöngu- og flutningamála í landinu.

Í grg. með þáltill. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs segir, með leyfi forseta:

,,Fullyrða má að sjóflutningar meðfram strandlengjunni séu verulega vannýttur samgöngukostur hér á landi. Þróunin í þessum málum hefur verið á þann veg að dregið hefur úr þessum flutningum ár frá ári og er nú svo komið að einungis eitt skip stundar reglulegar siglingar meðfram ströndum landsins.

Þessi þróun hefur orðið á sama tíma og menn hafa almennt verið sammála um margvíslega kosti sjóflutninga umfram landflutninga, svo sem minni mengun og minna slit á vegum. Þá hafa öryggismálin verið mjög til umræðu en því fer fjarri að vegakerfi landsins beri hina miklu þungaflutninga þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Lýtur þetta bæði að ökumönnum og farmi flutningabílanna, sem og öryggi annarra vegfarenda. Það er álit flutningsmanna þessarar tillögu að verulega hafi skort á stefnumótun af hálfu stjórnvalda í þessum efnum.``

Herra forseti. Ekki þarf að hafa mörg orð um það hvernig þessir miklu þungaflutningar hafa flust til af sjó og upp á land. Við sem ökum eftir þjóðvegum landsins reynum svo sannarlega að umferð stórra flutningabíla, langra dreka með mikla og langa aftanívagna, er orðin æ meiri á vegunum, þessum mjóu vegum sem eru nánast byggðir upp fyrst og fremst sem fólksbílavegir. Stór hluti vegakerfisins er auk þess ekki byggður upp til að þola burðarlega séð svo þunga flutninga, hvað þá að vegarbreiddin sé fær um að taka á móti þeim miklu flutningum.

Einnig má líta á umhverfisþættina en við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til þess að draga úr koltvísýringsmengun eða losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og meira að segja tímasettur ákveðinn árangur í þeim efnum. En í gegnum samgöngurnar er einn sá stærsti þáttur sem stuðlar að losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Í skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum frá í maí 2001 segir starfshópur á vegum samgrn. og Vegagerðarinnar eftirfarandi um strandsiglingar, með leyfi forseta:

,,Í samanburði við flutninga á vegum eru flutningar á sjó taldir vænlegri kostur með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Hér skiptir þó nýtingin mestu máli. Eðli skipaflutninga veldur því að miklu magni er safnað saman til flutninga í stórum flutningaeiningum. Þetta er einnig helsti veikleiki sjóflutninga því þeir eru mun seinvirkari en flutningar á vegum.

Árið 1990 komu um 7% losunar gróðurhúsalofttegunda frá innanlandssamgöngum frá strandsiglingum. Miðað við heildarlosun af völdum brennslu jarðefnaeldsneytis var hér um tæplega 3% að ræða. Í dag hefur mjög dregið úr losun frá þessum flutningum þar sem nú sinnir einungis eitt skip strandsiglingum og annað olíuflutningum við Ísland en flutningar sem áður voru á sjó hafa færst yfir á vegi. Fátt bendir til þess að þetta breytist á næstunni við óbreytt kostnaðarhlutföll. Ýmsir hafa haldið því fram að minnka mætti verulega útstreymi CO2 með því að snúa þessari þróun við. Það kann að vera rétt og er ástæða til að fjalla um það sérstaklega en umfang þessarar skýrslu leyfir það ekki.``

Þannig er það, herra forseti, að í vinnu samgrn. hingað til hafa menn vikið sér undan því að taka á þessum málum, að reikna út hagkvæmni og möguleika strandsiglinganna inn í flutningakerfi landsmanna. Menn tæpa á því að þetta geti verið hagkvæmt út frá flutningasjónarmiðum, þetta geti verið gott út frá mengunarsjónarmiðum en menn heykjast síðan á því í samgrn. að taka á málinu til hlítar og reikna út hagkvæmni strandflutninganna. Því er þessi tillaga flutt til að ýta á að slík úttekt verði gerð og leiðir kannaðar til að taka upp og styrkja öfluga strandflutninga.

[17:15]

Flutningakerfið hefur margvísleg byggðaáhrif. Fram hjá því verður ekki horft að fjölmörg byggðarlög búa nú við erfiðari aðstæður hvað samgöngur snertir en meðan reglubundnar strandsiglingar með samræmdri gjaldskrá voru við lýði. Einkum hefur þróunin orðið sú að flutningskostnaður þungavöru til og frá þeim byggðarlögum sem fjærst liggja helstu innflutnings- og útflutningshöfnum hefur hækkað og þjónusta og áreiðanleiki er misjafnari en áður var eftir ástandi vegakerfisins, vegalengdum og öðrum aðstæðum. Svo rammt kveður að þessu að nú er beinlínis flúið með framleiðslustarfsemi af landsbyggðinni til suðvesturhornsins, eingöngu vegna stóraukins flutningskostnaðar að sögn forráðamanna. Gæði, öryggi og verðlagning flutningaþjónustu eru því allt þættir sem líta verður til þegar byggðaáhrif mismunandi flutningsaðferða eru metin.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að flutningarnir og möguleikarnir á flutningum á miklu magni vöru ráða miklu um samkeppnishæfni fyrirtækja, sérstaklega úti um land. Ef allur útflutningur á að fara um Reykjavíkurhöfn eða hafnirnar á suðvesturhorninu og vörurnar fluttar með bílum af öðrum landshlutum þá hlýtur það að skerða mjög samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni. Tökum sem dæmi Sauðárkrók þar sem steinullarverksmiðjan er. Þar hefur verið framleidd steinull sem hefur verið flutt m.a. með skipum. Leggist siglingar þar af flyst sá flutningur algerlega upp á land á flutningabíla og má búast við að framleiðslan þar verði óhagkvæmari af þeim sökum vegna mikils flutningskostnaðar. Svona dæmi má nefna hringinn í kringum landið. Tökum dæmi um flutning fóðurs, áburðar og annars slíks varnings á Vestfirðina. Einstaklingar og fyrirtæki þar verða að taka á sig gríðarlegan kostnað vegna hás flutningskostnaðar með bílum.

Hið sama má segja um útflutning á vörum frá höfnunum. Ef flytja verður þetta á bílum langan veg þá eykur það óöryggið á löngum og erfðum vegum og auk þess skapast líka verulegur kostnaður. Ég tala nú ekki um þær hafnir sem byggðar hafa verið upp vítt og breitt um landið til að þjóna þessum flutningum. Þær missa þá líka verkefni þannig að þessi mannvirki og starfsemi nýtast ekki sem ella.

Í fréttabréfi Siglingastofnunar, Til sjávar, 4. tbl. 5. árg. nóvember 2001, segir frá ályktun sem samþykkt var á ársfundi Hafnasambands sveitarfélaga 5. og 6. október 2001. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Á fundinum var lýst ánægju með vinnu að samræmdri samgönguáætlun. Um leið minntu fundarmenn á mikilvægi hafna í samgöngukerfi landsmanna og að sjóflutningar væru að hluta til vannýttir sem samgöngukostur. Í því sambandi var bent á þá staðreynd að fiskihafnir landsins væru mikilvæg uppspretta samgangna á landi og sjó vegna þeirra afurða sem þar koma á land.

Þá væru sjóflutningar þjóðhagslega hagkvæmir til lengri tíma litið vegna góðrar orkunýtingar á hvern tonn/km.`` --- Þ.e. flutningskostnaður á tonn per kílómetra í vegalengdum. --- ,,Að auki væru þeir umhverfisvænir og öruggari flutningsmáti en landflutningar.

Fulltrúar á ársfundinum skoruðu á stjórnvöld að láta fara fram endurskoðun á Flutningsjöfnunarsjóði og töldu óþolandi að landflutningar væru styrktir umfram sjóflutninga úr þeim sjóði. Var einkum bent á flutninga á olíu og sementi í því sambandi.

Þá skoruðu fundarmenn á samgönguráðherra að hafa vinnu Hagfræðistofnunar um samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum að leiðarljósi í vinnu að samræmdri samgönguáætlun.``

Virðulegi forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, taka undir framangreind sjónarmið. Gert er ráð fyrir að strandsiglinganefndin sem yrði skipuð á grundvelli þessarar tillögu hér, skili tillögum sínum fyrir 1. október 2003.

Virðulegi forseti. Þetta er eitt mikilvægasta mál í samgöngumálum Íslendinga að taka á og endurskoða hlutverk strandsiglinga í landinu og virkilega að kanna hagkvæmni þeirra og finna leiðir til þess að strandsiglingar geti orðið samkeppnishæfur valkostur í flutningskerfi á vörum milli landshluta og einnig til útlanda frá einstökum höfnum á landinu.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi tillaga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um strandsiglingar fái góða og trausta meðferð í þinginu og í hv. samgn. og komi sem fyrst fyrir þingið aftur til síðari umr. þannig að hún megi samþykkjast á þinginu og að hægt verði að fara að vinna sem allra fyrst að þessu merka máli um siglingar við strendur Íslands sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytjum hér.