Samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:34:39 (2034)

2002-12-04 13:34:39# 128. lþ. 45.91 fundur 293#B samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi hina samræmdu samgönguáætlun. Koma hennar hefur verið boðuð allt þetta haust. Í vor voru samþykkt ákvæði þar sem mönnum sást að vísu yfir nokkur atriði, t.d. með flugráð sem hafði ekki umboð til að starfa og þurfti að keyra í gegnum þingið lagabreytingu til að koma á virku flugráði. Maður ímyndaði sér að það væri að nokkru leyti ástæðan fyrir bægslagangnum með þetta blessaða mál í samgrn.

Það gleður mig hins vegar að heyra að oddviti hæstv. ríkisstjórnar lýsi því úr ræðustóli að þessi samræmda mikla samgönguáætlun komi fyrir þingið í þessari viku. Það er þá vonum seinna að það gerist.

Það er auðvitað hárrétt sem hér hefur komið fram, að það er bagalegt að hafa ekki getað rætt málið og skoðað það. En það má kannski segja sem svo að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki séð fyrir hversu mikið mál væri að setja þetta saman. En vonandi kemur samræmd samgönguáætlun sem eitthvert vit verður í þegar hún loks kemur nokkrum dögum fyrir jól.