Samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:36:02 (2035)

2002-12-04 13:36:02# 128. lþ. 45.91 fundur 293#B samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Samkvæmt lögum skal liggja fyrir veg\-áætlun eða samgönguáætlun, sem tekur bæði til vegamála, flugmálaáætlunar og almenningssamgangna og fleira sem lýtur að samgöngumálum, áður en fjárlög eru afgreidd. Núna er ekki í gildi nein samgönguáætlun, hvorki vegáætlun né flugmálaáætlun. Engu að síður er í fjárlagafrv. sundurliðun á framlögum til vegamála á ýmsa aðalflokka. Það var þó upplýst í samgn. þar sem ég sit að þessi skipting væri bara til þess að leggja tölur á blað en mundi breytast.

Ég gerði athugasemdir við það í hv. samgn. að samgönguáætlun lægi þar ekki fyrir þegar samgn. fékk fjárlagafrv. til umsagnar. Ég tel að samgn. hefði getað þrýst á það enn frekar að fá samgönguáætlun inn. Einnig gerði ég athugasemd við það í fjárln. þegar gjaldahlið fjárlagafrv. var afgreidd án þess að vegáætlun eða tillögur um skiptingu vegafjár lægi fyrir.

Herra forseti. Einn stærsti og mikilvægasti málaflokkurinn sem Alþingi fæst við eru samgöngumál, vegamál, flugmál og almenningssamgöngur. Það er því algerlega óviðunandi að hér sé gengið á svig við lög varðandi afgreiðslu fjárlaga. Jafnframt er það óviðunandi að Alþingi og þingnefndir Alþingis geti ekki fjallað um forgangsröðun og forsendur vegaframkvæmda um leið og ákveðin eru fjárframlög til þeirra.

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að fjárlög verði ekki afgreidd fyrr en samgönguáætlun og vegáætlun liggi fyrir þannig að málin gangi fyrir sig með eðlilegum og lögformlegum hætti.