Endurreisn Þingvallaurriðans

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:45:13 (2037)

2002-12-04 13:45:13# 128. lþ. 46.1 fundur 165. mál: #A endurreisn Þingvallaurriðans# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það kemur fyrir að hér eru hin hinstu rök og eilífðarmálin rædd. Eitt af þeim málum liggur fyrir þinginu. Þingvallavatn og Þingvellir eru þessu þingi mjög kær. Hluti vatnsins og Þingvallasvæðið eru undir sérstakri helgi samkvæmt lögum sem þetta þing samþykkti árið 1928 og Alþingi fer með vernd þessa svæðis.

Þingvallavatn er einstakt í veröldinni, ekki síst fyrir sakir þeirra fiska sem þar synda í djúpunum. Þar eru fjórar bleikjugerðir og ekkert land á öllu jarðríki státar af slíku vatni. En þar er líka að finna fisk sem ég hef stundum kallað hátind sköpunarverksins, urriðann. Hann svamlaði hingað til Íslands fyrir 10 þúsund árum og átti löngum góða og greiða leið milli vatnsins og sjávarins og var þá sjóbirtingur. En þegar fargi jökulsins létti af landinu fyrir 9 þúsund árum birtust ókleifir fossar í Soginu og Þingvallaurriðinn varð innlyksa. Þess vegna er hann einstakur í heiminum. Í honum eru gen sem ekki er að finna annars staðar. Þau valda því að hann verður ákaflega seint kynþroska. Hann verður ákaflega stór og gamall og ég hef hvergi fundið dæmi um nokkurn annan stofn sem varð jafnstór og þessi urriði. Þess vegna er hann einstakur og það ber að varðveita hann og vernda eins og hægt er.

Hins vegar er það svo, herra forseti, að mannanna verk hafa leitt til þess að urriðinn í Þingvallavatni hefur verið í hættu. Hann komst hvað lengst niður fyrir tíu árum eða svo þegar afleiðingar virkjunarinnar við Efra-Sog komu hvað gleggst fram. Það má heita að urriðinn hafi verið við að deyja út.

Þá var gripið til umdeildra aðgerða sem m.a. fólu í sér sleppingar. Þær voru ákaflega umdeildar á sínum tíma. Ég tel að þær hafi heppnast vel og hafi leitt til þess að það er aftur komin urriðaglóð í vatnið. Það er t.d. ein af dásemdum íslenskrar náttúru að sjá urriðana stóru svamla á hrygningarstöðvunum í Öxará framan við kirkjuna núna á hverju hausti. Þangað fer ég, herra forseti, jafnan og fylgist með þessu. Það er stórkostlegt að sjá að þrátt fyrir allt er hann að koma upp aftur.

Hér urðu nokkrar umræður árið 1998 um hvernig vernda ætti urriðann og hvort það væri hægt. Það varð til þess að hér tókust menn pínulítið á um mismunandi aðferðir, vegna þess að það er hægt að draga í efa sumar þessara aðferða, m.a. þá sem ég nefndi hér. Niðurstaðan varð sú að hið háa Alþingi samþykkti ályktun um að stofna nefnd. Það var gert 3. mars 1998. Ég veit að hæstv. forsrh. deilir með mér áhuga og ástríki á Þingvallavatni og Þingvallaurriðanum og ég er þess vegna sannfærður um að þetta mál er vel á veg komið. Þess vegna hef ég beint til hans þessari fyrirspurn:

1. Hverjir voru skipaðir í nefnd sem gera átti tillögur um leiðir til að efla urriðastofna í Þingvallavatni, samkvæmt samþykkt Alþingis frá 3. mars 1998?

2. Hvernig hefur starfi nefndarinnar miðað?

3. Er að vænta tillagna frá nefndinni?