Endurreisn Þingvallaurriðans

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:51:27 (2039)

2002-12-04 13:51:27# 128. lþ. 46.1 fundur 165. mál: #A endurreisn Þingvallaurriðans# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Aldrei hefði ég lagt í það sem hæstv. forsrh. gerði sjálfur, að líkja sér við egg. Ég verð að segja það að miðað við það átak sem hann hefur gert í mataræði sínu mundi ég aldrei nota það orð um hann núna.

Hins vegar verð ég að segja að ég er bæði ánægður en þó líka vonsvikinn með svar hæstv. ráðherra. Ég get svo sem lifað við þá staðreynd að þessi nefnd hafi aldrei verið skipuð. En ég vil samt rifja það upp að skipan hennar átti einmitt að verða til að fá sérfræðinga til að skera úr um hvort í lagi væri að ráðast í tilteknar aðgerðir.

Það eru auðvitað tvenns konar aðgerðir sem ég legg áheslu á. Í fyrsta lagi að rofið verði skarð í stífluna sem er á milli vatnsins og niður Efra-Sogið. Nú þegar streymir mikið vatn þar og hvers vegna ekki að láta það streyma um farveg þar sem urriðinn getur þá leitað aftur niður á sín fornu óðul? Ég vil spyrja hæstv. forsrh., vegna þess að hann tók svo til orða að þetta væri í íhugun: Er hann ekki þeirrar skoðunar að það eigi að gera þetta?

Ég rifja það upp að einn af ráðherrum í fyrri ríkisstjórn hans, núverandi hæstv. forseti þingsins, Halldór Blöndal, tók undir að það ætti að gera slíkt. Ég er því eindregið fylgjandi og mundi fagna því væri það gert.

Í annan stað voru menn andstæðir þeirri skoðun sem ég og fleiri fylgdu, að sleppa ætti urriða, m.a. vegna þess að þeir töldu að erfitt væri að ná nógu mörgum hrygningarfiskum til að skapa nógu mikla erfðafræðilega fjölbreytni í ungviðinu. Mér sýnist, eins og urriðinn er að koma upp í vatninu í dag, að hægt væri að gera þetta. Eigi að síður lögðust aðilar hjá Náttúruvernd gegn þessu og einmitt þess vegna vildi ég fá þessa nefnd á laggir. En ég spyr hæstv. forsrh., vegna þess að hann tekur svo til orða að nýlega hafi þegar verið sleppt einhverjum urriðaseiðum í vatnið: Er það svo? Eru slíkar sleppingar byrjaðar? Og ef ekki, telur hann þá ekki rétt að koma á laggir nefnd til að ræða möguleikana á að gera það?