Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:54:55 (2041)

2002-12-04 13:54:55# 128. lþ. 46.2 fundur 91. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvernig Ísland eða hann sem utanrrh. hafi framfylgt ályktun Alþingis frá því í maí 2001 um að Ísland beiti sér fyrir endurskoðun á viðskiptabanni á Írak og styðji frumkvæði Norðmanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í því sambandi.

Þetta mál á sér þá forsögu að alls sex sinnum flutti ræðumaður tillögu hér á þingi um að Íslendingar beittu sér fyrir slíkri endurskoðun viðskiptabannsins. Ástæðurnar eru að sjálfsögðu þær hörmungar og þjáningar sem sannanlega hafa gengið yfir almenning í Írak vegna þessa viðskiptabanns, hvað sem öðru líður, og hafa þær þjáningar og hörmungar bæst við þær sem írakskur almenningur hefur þolað vegna harðstjórnar og styrjaldarreksturs einræðisherrans Saddams Husseins. Leitun mun að þjóð sem hefur lifað jafndimma daga og írakska þjóðin síðustu 10--20 ár. Var þar þó áður einna mest velmegun og einna þróaðast ríki í öllum löndum arabaheimsins.

Hjálparsamtök eins og Amnesty International, Rauði krossinn og ýmiss konar stofnanir og hópar hafa eindregið hvatt til endurmats á þessum aðgerðum um langt árabil og hvatt til að a.m.k. yrðu rýmkaðar reglur um almennar vörur, varahluti og annað sem staðið hefur Írak mjög fyrir þrifum að fá ekki til sín með frjálsum hætti til að unnt væri að endurreisa stoðkerfi samfélagsins, vatnsveitur, orkuveitur og annað því um líkt, sem sprengt var til grunna eða varð óstarfhæft í Flóabardaga. En mestu veldur þó sá skortur á matvælum og lyfjum sem er sjálfsagt meginorsök þessa mikla mannfalls sem orðið hefur í Írak á síðustu árum, en þar er talið að um 1,5 milljónir manna hafi látið lífið vegna beinna og óbeinna afleiðinga viðskiptabannsins frá því að Flóabardaga lauk, þar af a.m.k. þriðjungur eða yfir hálf milljón barna.

Ekki færri en þrír yfirmenn hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna í Írak hafa sagt af sér embætti í mótmælaskyni við ástandið í landinu og það sem þar fer fram að þessu leyti á ábyrgð alþjóðasamfélagsins vegna viðskiptabannsins. Þau Hans von Sponeck, Jutta Burghart og Denis Halliday, þrautreyndir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna við sambærilegar aðstæður til áratuga, gengu öll þessa slóð.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvað hann geti frætt okkur um varðandi ályktun Alþingis frá 19. maí 2001, um endurskoðun viðskiptabanns á Írak, hvernig henni hafi verið fylgt eftir.